Það var vel tekið á móti okkur þegar við lentum á flugvellinum í Kiev, höfuðborg Úkraínu. Okkur var ekið heim til nýgiftra hjóna, sjálfboðaliða í KFUM, sem búa við sömu aðstæður og flestir íbúar borgarinnar stóru. Húsið var gömul “rússablokk” þar sem myrkrið umlukti nágrennið enda ekki verið að eyða aurum í götulýsingu. Eins voru íbúðirnar takmarkað lýstar af sömu ástæðu.

Þegar gengið var inn í stigaganginn var eins og maður kæmi inn í hús sem var og er fokhelt eftir áratugi. Ekkert ljós var í stigaganginum og við fikruðum okkur upp þrepin þar til við komum á fjórðu eða fimmtu hæð. Auðvitað var engin lyfta. Þegar inn í íbúðina var komið mætti okkur langur gangur með herbergi á báðar hliðar. Í íbúðinni búa sex fjölskyldur. Hver og ein hefur sitt herbergi. Það er sameiginlegt eldhús og snyrting.

Við gengum inn ganginn að innstu dyrum til hægri. Þar beið okkar unga húsmóðirin og bauð okkur inn í vistarverur þeirra hjóna, um það bil 10 fermetra herbergi, með vaski, fataskáp, sófa, sem er jafnframt rúm þeirra hjóna yfir nóttina og samanbrjótanlegu borði sem stóð uppábúið og dekkað kræsingum. Okkur var boðið upp á rauða borsh súpu, þjóðarrétt Úkraínufólks. Þetta er gómsæt súpa sem inniheldur smá kjöt, kartöflur, rauðrófur og annað grænmeti. Allt var mjög snyrtilegt og vel fram sett. Maturinn bragðaðist mjög vel. Saman áttum við góða stund þar sem við spjöllum um starfið í KFUM, jólapakkana og fleira. Húsakynnin voru dæmigerð fyrir ungt fólk sem er að hefja búskap, bjartsýn með hugann fullan af draumum um betri tíð og bjarta framtíð.

Vagninn okkar var númer 80, klefi númer 40 og við áttum koju númer 5 og 6, í lestinni á leið til Znamenka. Klukkan var 23:12 þegar við lögðum af stað frá höfuðborginni áleiðis til Znamenka, sem er næsta lestarstöð við ákvörðunarstaðinn Subotcy. Ferðin með lestinni tók 4 tíma og við höfðum verið á ferðinni 18 klst þegar hér var komið sögu. Við flugum fyrst til London og þaðan til Kiev. Þetta var orðinn langur dagur en við vorum ekkert sérlega spennt fyrir að leggja okkur í lestinni. Í klefanum með okkur var kona sem lagðist fljótlega til svefns en við lásum og töluðum saman í lágum hljóðum. Um klukkan tvö kom maður inn í klefann og bættist í hópinn. Hann lagðist í efri koju og sofnaði fljótt.

Á brautarpallinum beið faðir Yevheniy með stórt bros. Hann tók vel á móti okkur og bauð okkur hjartanlega velkomin. Veðrið var stillt og hitastigið um frostmark. Við héldum af stað með leigubíl í prestsbústaðinn í Subotcy. Þar fengum við næturhvíld sem var kærkomin. Dagur eitt í þessari ferð var liðinn.

Við vöknuðum að morgni annars dags og hún Anna ráðskona prestsins freistaði okkar með morgunverðarhlaðborði. Morgunverðurinn hennar Önnu var í raun eins og gott kvöldverðarhlaðborð. Hún var löngu vöknuð og búin að standa í eldhúsinu við að útbúa hina ýmsu rétti fyrir gestina. Á borðum var heit kartöflumús með smá kjöti, nýbakaðar pönnukökur með berjasultu úr garðinum hennar og fleira og fleira. Hér ræktar fólk helstu lífsnauðsynjar og hver planta er nýtt og hver landskiki.

Að morgunverði loknum var farið í að undirbúa dreifinguna, kassar sóttir og teknir til. Síðdegis vorum við í Nadya, sem er móttökuheimili fyrir munaðarlaus börn og börn sem búa við afar erfiðar heimilisaðstæður. Sum eru tekin beint af götunni. Þau eru vistuð þar í allt að þrjá mánuði áður en þeim er búið heimili annars staðar. Hingað höfum við komið nokkrum sinnum áður. Þegar ég kom hingað fyrst fyrir um það bil 5 árum hafði verið mikið frost, um 30°C. Miðstöðin í húsinu var ónýt og kuldinn inni var síst minni en úti. Börnin voru klædd í öll þau fáu föt sem þau áttu og látin vera í rúminu allan daginn undir sæng til að skapa svolítinn líkamshita. Mörg þeirra veiktust, fengu lungnabólgu. Veggirnir voru svo rakir að málningin datt af, gólfið svo kalt og rakt að gólfdúkurinn lá í henglum ofan á. Húsnæðið var í vægast sagt döpru ásigkomulagi.

Síðan þá hefur ýmislegt jákvætt gerst. Búið er að endurnýja miðstöðina, skipt var um þak á húsinu í sumar, veggir málaðir og húsnæðið hefur verið endurnýjað að hluta. Við höfum reynt að taka svolítinn þátt í því, m.a. keypt gólfefni, rúmdýnur, inniskó og eitt og annað smálegt. Forstöðumaðurinn er áhugasamur og hugsar vel um allt. Hann hefur verið hér í um 3 ár. Það kom glampi í augu hans þegar við ræðum um uppbyggingu heimilisins. Hér líður þessum börnum vel miðað við aðstæður. Í þetta sinn voru börnin óvenjufá eða 22. Venjulega eru hér um 80 börn. Fyrr í mánuðinum voru 16 börn flutt annað til framtíðardvalar.

Alla er 16 ára. Þegar við hittum hana hafði hún verið sex daga á Nadya. Hún er upprunalega frá Moldavíu þar sem hún missti föður sinn ung. Móðir hennar tók sig upp eftir það og flutti sig til Kirovograd í Úkraínu. Þar lést móðir hennar fyrir nokkru. Alla hafði húsnæði en það er svo lélegt og kalt að þar er ekki hægt að vera. Hún fór í skóla og lauk skyldunámi og eftir það lærði hún matseld. En hún hefur ekki vinnu og aðstæður hennar eru afar slæmar. Því er hún hér, í einangrun því hver einstaklingur þarf að gangast undir læknisskoðun og próf í um það bil 10 daga áður en hún fær að samlagast hópnum. Hver framtíð hennar verður veit enginn. En hún var glöð og þakklát eins og hin börnin að fá jólagjöf frá Íslandi. Ég held hún hafi ekki fengið marga jólapakka né aðrar gjafir á sinni stuttu ævi. Ævi sem hefur reynt fleira og þyngra en margur gerir á langri ævi.

Dagur tvö var að kvöldi komin og við höldum heim til að ræða frekar verkefni morgundagsins.

Það eru fjölmörg þroskaheft og fötluð börn í Úkraínu og þriðja daginn, 29. desember heimsóttum við heimili fyrir þroskaheft börn í bæ sem heitir Novomirgorod. Hann er í um 100 km fjarlægð frá Kirovograd. Þó fjarlægðin sé ekki mikil tekur það okkur um tvær klukkustundir að komast þangað. Bæði var rútan sem flutti okkur a.m.k. fjörtíu ára og vegurinn ekki góður. Hann var malbikaður, já, en kræklóttur og holóttur.

Við settum í rútuna 150 pakka og fengum hjálp frá sjálfboðaliðum sem ætluðu að slást í för. Við skröltum eftir veginum og sums staðar voru hálkublettir vegna snjóa. Eins gott var að við þurftum ekki að snögghemla því hjólbarðarnir voru nú ekki traustvekjandi á íslenskan mælikvarða. En með varðveislu Guðs komumst við á áfangastað þar sem vel var tekið á móti okkur. Nokkrir unglingar komu út og hjálpuðu okkur við að bera inn gjafirnar. Það var tilhlökkun og eftirvænting í augum þeirra.

Okkur var boðið á jólaskemmtun eldri barnanna þar sem þau sungu og dönsuðu eins og slíkum börnum er einum lagið. Þau voru og ánægð þegar sýningunni lauk og þá var komið að því að deila út gjöfunum. Þau ljómuðu af gleði þar sem þau skoðuðu pakkann sinn, gægðust undir lokið og kíktu á innihaldið. Þau tóku upp einn og einn hlut, skoðuðu og sýndu hvert öðru með bros á vör og glampa í augum.

Á þessu heimili dvelja 151 barn á aldrinum tveggja til þrjátíu og átta ára. Þau eiga mörg foreldra sem ýmist vilja ekki af þeim vita, eru ekki hæf til að sinna þeim eða of fátæk til að eiga möguleika á að hafa þau heima. Sum eru munaðarlaus. Þarna fá þau gott atlæti og þjálfun og menntun eins og kostur er. Okkur var boðið upp á hressingu, borsh súpu og meðlæti inni á skrifstofu forstöðukonunnar. Við heimsóttum þetta heimili í fyrsta sinn í fyrra og okkur sýnist aðbúnaður þarna vera ágætur miðað við aðstæður.

Á leiðinni til baka stoppuðum við í stórmarkaði til að kaupa hreinlætisvörur, þvottaefni, ljósaperur og salernispappír. Birgðir til eins árs fyrir barnageðdeild sjúkrahúss í Novy. Þar höfum við heimsótt börnin á hverju ári frá upphafi verkefnisins. Þangað keyptum við tvær þvottavélar en áður var allur þvottur handþveginn. Eins keyptum við líka vatnshreinsitæki svo börnin fengju hreint vatn að drekka. Við höfum séð þeim fyrir þessum birgðum undanfarin ár en framlög ríkisins duga ekki fyrir helstu nauðsynjum. Því höfum við reynt að rétta hjálparhönd. Í þetta sinn voru börnin óvenjufá. Nokkur höfðu dáið á liðnu ári m.a. úr svínaflensu. Þau sem voru þarna fengu smá glaðning en mest var gleði starfsfólksins og þakklæti fyrir aðstoðina sem kemur frá Íslandi. Þær minnast þeirra daga áður en þær fengu þvottavélar og hreinsiefni. Ég man líka þegar ég kom þarna áður en það gerðist. Orð geta vart líst þeirri aðkomu. Veik börn sem gerðu þarfir sínar í rúmið, víða ekkert ljós, snyrtingar óþrifnar og lyktin langt út á götu. Nú er þetta allt annað, hreint og snyrtilegt. Þau nánast bóna þvottavélarnar, starfsfólkið, svo ánægð er það með þetta allt saman.

Það er í raun kraftaverk að rútan okkar skyldi enn á ný vera mætt á réttum tíma að morgni 30. desember. Við nutum aðstoðar sjálfboðaliða enn á ný við að setja rúmlega 150 kassa í rútuna. Að því loknu var haldið af stað. Nú á nýjan stað sem við höfðum ekki heimsótt áður. Þetta er heimili sem er í senn skóli, munaðarleysingjaheimili og heimavist, við bæ sem heitir Dobrovelichkovka. Bærinn er í um 130 km fjarlægð frá Kirovograd. Ekki var nú rútan okkar traustvekjandi því vélin drap á sér í hvert sinn sem við þurftum að hægja á okkur eða stoppa. Á köflum hélt ég hún myndi ekki fara í gang aftur en það hafðist allt að lokum. Eftir vel á þriðja tíma komum við á áfangastað. Þarna eru gríðar mikil húsakynni, nokkrar stórar byggingar en hluti þeirra nánast í eyði og annað í misjöfnu ástandi. Allt var byggt á tímum kommúnismans, eins og sjá má á byggingarforminu.

Þegar við komum í anddyri matskálans voru slíkir dropar í loftinu að við héldum fyrst að þetta væri eins konar skrautsteypa. Þegar betur var að gáð reyndust þetta vera vatnsdropar vegna gífurlegs raka í loftinu. Skóla- og svefnhúsið var í þokkalegu standi á úkraínskan mælikvarða. Börnin sofa 10-15 saman í herbergi, stúlkur á einni hæð og strákar á annarri. Skólinn er ágætlega tækjum búin m.a. tölvuherbergi með internet tengingu. Skólinn er fyrir börn á aldrinum 6-18 ára.

Enn á ný var okkur boðið á jólaskemmtun skólans. Hluti barnanna var farinn heim til sín, þau sem eru þarna í heimavist. Eftir á staðnum voru þau sem eru munaðarlaus. Þau sýndu okkur flotta dansa sem þau höfðu sjálf samið og æft. Fluttu okkur ljóð og sungu fyrir okkur. Að því loknu afhentum við þeim pakka sem framkölluðu sjaldséð blik í augum og bros á vör. Það var áhrifarík stund þegar þau tóku við gjöfinni sinni, opnuðu hana og skoðuðu innihaldið, mátuðu, smökkuðu og sýndu hvert öðru. Þennan dag náðum við enn á ný að sjá börn gleðjast sem svo sannarlega þurftu á því að halda. Það eru sönn forréttindi að fá með þessum hætti að miðla kærleika Krists sem elskar okkur hvert og eitt fullkominni elsku, sama hver staða okkar er. Börnin voru hissa á að fólk alla leið frá Íslandi skyldi láta sér þykja vænt um þau, gera sér ferð til að heimsækja þau og gefa þeim gjöf. Fyrir þeim var þetta óskiljanlegur kærleikur.

Það var með þakklæti í hjarta sem við yfirgáfum þennan stað og skröltum til baka í rútunni sem vissulega hélt okkur spenntum hvort við hefðum heimferðina af eða ekki. Bænirnar voru heitar fyrir börnunum og ekki síður fyrir rútunni og bílstjóranum, að við næðum heim, heilu og höldnu.

Kærar þakkir fylgja okkur til allra þeirra sem tóku þátt í verkefninu “Jól í Skókassa”. Ég get fullvissað ykkur að hver einasti pakki færir gleði og kærleika inn í líf þeirra einstaklinga sem fá að njóta.

Guð blessi ykkur öll,
Björgvin Þórðarson


Myndir frá dreifingu jólapakkanna má sjá hér.