Það var ótrúlega fallegur morgun í Lindarrjóðri. Eftir morgunmat og fánahyllingu var ákveðið að færa morgunstundina út í skógarkirkju, en það er rjóður uppi í skógi hjá okkur. Frábær morgunstund í glampandi sól. Strákarnir lærðu um heiðarleika og farið var yfir það sem Þeir hefðu lært í flokknum og hvernig þeir gætu nýtt sér það í framtíðinni.
Eftir biblíulestur var boðið upp á báta, íþróttahúsið var opið, knattspyrnuleikur milli pressu- og landsliðs fór fram úti á velli og strákarnir fengu að vaða í vatninu, enda klárlega veðrið til þess. Í hádegismat voru pizzur og fengu strákarnir að borða úti í garði.
Í gær var veisludagur hjá okkur Vatnaskógi. Í kvöldverð var boðið upp á dýrindis steik, brúnaðar kartöflur og ýmislegt meðlæti. Þá var öllu skolað niður með ísköldu Coca Cola. Að matnum loknum var haldið út á kvöldvöku þar sem bikarar voru veittir fyrir sigur í hinum ýmsu keppnum. Fjórða borð vann biblíspurningakeppnina og fékk keppnisliðið sérstaka útgáfu af Nýja testamentinu. Fjórða borð sigraði einnig hegðunarkeppnina í þessum flokki.
Bein útsending var sýnd frá sjónvarpi Lindarrjóðri þar sem fréttir af drengjunum voru sagðar. Að því loknu var sýndur annáll úr flokknum. Hilmar foringi var með hugleiðingu og framhaldssagan var kláruð. Kvöldvakan endaði síðan á Skonrokki, en þá eru sungin nokkur lög sem samin hafa verið að foringjum.
Allar myndir úr flokknum má finna á myndasíðunni: http://www.flickr.com/photos/kfum-kfuk-island/sets/72157630726188118/
Starfsfólk 10. flokkar í Vatnaskógi þakkar kærlega fyrir góðan flokk. Vonandi sjáum við sem flesta að ári.
Með kveðju úr Lindarrjóðri,
Ásgeir Pétursson, forstöðumaður.