Dagur 1 – Komudagur
Loksins gafst tími til að skrifa smá frétt fyrir ykkur sem heima sitjið. Í gær komu 32 eldhressar stelpur hingað upp í Vindáshlíð í óvissuflokk sumarsins. Mikil gleði og spenningur ríkti hjá stelpunum. Við byrjuðum á því að bjóða þeim í matsalinn hérna í Vindáshlíð og skiptum þeim í herbergi. Eftir að stelpurnar höfðu komið sér fyrir og skoðað sig aðeins um á staðnum var boðið upp á sveppasúpu og brauð í hádegismat sem stelpurnar borðuðu vel af. Eftir hádegismat var stelpunum boðið upp á að segja hvað þær vildu gera í vikunni og komu fullt af skemmtilegum hugmyndum fram sem verða flestar framkvæmdar. Síðan var farið í fullt af skemmtilegum leikjum sem þjöppuðu hópnum betur saman. Það var ágætt veður og gott að fá ferskt loft úr Hlíðinni.
Í kaffinu var boðið var upp á bleikar bollakökur, rice crispies kökur og kryddbrauð með smjöri og osti sem stelpurnar renndu niður með djús. Eftir kaffi hófst svo brennókeppnin og það verður spennandi að sjá hvaða herbergi stendur uppi sem sigurvegari í lok vikunnar. Í kvöldmatinn var boðið upp á hakk og spagettí. Bjöllunni var hringt eftir kvöldmat og stelpurnar söfnuðust saman í setustofunni. Þá var farið í hinn víðfræga hermannaleik en hann var ofarlega á listanum hjá flestum stelpunum. Þá klæða foringjarnir sig upp sem hermenn og elta stelpurnar um svæðið en þær keppast að því að komast á griðarstaðinn. Eftir leikinn er síðan rætt um mismunandi aðstæður fólks í heiminum og stelpurnar minntar á hvers gott er að búa á Íslandi og mikilvægt að við biðjum fyrir fólkinu út í heimi sem á um sárt að binda. Eftir hugleiðingu, þar sem stelpurnar lærðu um að Guð veit hvernig þeim líður og er til staðar fyrir þær, fóru þær að tannbursta sig og komu sér í náttföt, áður en bænakonuleitin hófst. Bænakonurnar fóru síðan inn til stelpnanna og enduðu daginn með þeim. En dagurinn var ekki búinn enn, stuttu eftir að bænakonurnar voru farnar frá þeim og stelpurnar héldu að þær væru að fara að sofa klæddu foringjarnir sig í náttföt, settu klósettpappír í hárið og þrömmuðu inn á svefngang hjá stelpunum og tilkynntu að náttfatapartý væri að fara í gang. Stelpur og foringjar dönsuðu eins og enginn væri morgundagurinn inni í matsal, upp á borðum og bekkjum, og var mikið stuð. Stúlknabandið, Spice Girls, ákvað síðan að heiðra okkur með nærveru sinni og tók eitt lag fyrir stelpurnar áður en þær fengu frostpinna. Það voru lúnar en ánægðar stelpurn sem lögðust á koddann sinn að kvöldi mánudagsins, spenntar að sjá hvað komandi dagar bera í skauti sér.
Dagur 2 – Amerískur rugldagur
Stelpurnar fengu að sofa smá út þar sem farið var seint að sofa eftir fjörugt náttfatapartý. Í staðinn fyrir morgunmat var stlepunum boðið upp á kvöldkaffi og þar á eftir var hugleiðing þar sem stelpurnar lærðu um Biblíuna og hvernig við getum treyst Guði. Eftir hugleiðinguna fengu stelpurnar ekki rétta bænakonu inn á herbergið sitt áður en brennókeppnin hófst. Í hádegismat var boðið upp á jarðaberjagraut og brauð fyrir stelpurnar. Eftir hádegismat var farið í bingó þar sem vegleg verðlaun voru í boði fyrir stelpurnar. Í kaffinu var boðið upp á súkkulaðiköku sem var skreytt eins og ameríski fáninn. Eftir kaffi var brennókeppni og íþróttakeppni. Í kvöldmatinn fengu stelpurnar makkrónur og ost ásamt heimabökuðu brauði. Um kvöldið hófst svo ævintýrahúsið en þá fara stelpurna í ævintýraheim Vindáshlíðar og hitta þar Þyrnirós, Jack Sparrow, Hattarann og nornina í Hans og Grétu. Það mæltist mjög vel fyrir og voru stelpurnar ánægðar með Ævintýrahúsið. Í kvöldkaffinu, þar sem stelpurnar gæddu sér á morgunmat, fengum við heimsókn frá ungum herramanni sem tók lagið fyrir okkur. Bænakonurnar fóru inn rétt fyrir miðnætti og voru stelpurnar fljótar að sofna eftir langan dag.
Dagur 3 – Bleikur stelpudagur
Stelpurnar voru vaktar í morgun og tilkynnt að í dag væri bleikur dagur. Eftir morgunmat var farið á fánahyllingu og síðan á bíblíulestur þar sem stelpurnar og forstöðukonan ræddu um kosti og galla kvenna, um konur í Biblíunni og fyrirmyndir. Eftir biblíulestur voru nokkrir brennóleikir og í hádegismat fengu stelpurnar Sloppy Joe að borða. Eftir hádegismat var skundað niður í íþróttahús þar sem stelpurnar hönnuðu kjóla úr svörtum ruslapoka, gerðu hárgreiðslur í hvor aðra og máluðu. Í lokin var haldin tískusýning og gaman að sjá hvað stelpurnar eru gríðarlega hæfileikaríkar. Eftir tískusýninguna söfnuðust allar stelpur og allir starfsmenn saman í forstöðukonunni. Frú Vigdís Finnbogadóttir heiðraði okkur með nærveru sinni sem var ákaflega ánægjulegt. Stelpurnar spurðu Vigdísi að góðum og skemmtilegum spurningum og áttum við virkilega góða stund. Síðan gáfum við frú Vigdísi bókina Hér andar Guðs blær sem stelpurnar höfðu allar skrifað nafnið sitt í og geisladisk með þekktum Vindáshlíðarlögum. Eftir að Vigdís fór var kaffitími þar sem boðið var upp á súkkulaðiköku og gulrótarköku sem stelpurnar skoluðu niður með mjólk. Eftir kvöldmat var frjáls tími fram að kvöldmat. Í kvöldmatinn var skyr og brauð en eftir kvöldmat var búið að setja fullt af dýnum í setustofuna og skjávarpinn kominn í gang og horft á bíómynd. Boðið var upp á popp í hléi og eftir myndina var hugleiðing um miskunnsama Samverjann. Foringjarnir ákváðu að kanna áhugann hjá stelpunum um miðnæturgöngu upp á Sandfell. Áhuginn var mjög góður og var því úr að upp á Sandfellið fóru um 20 stelpur og 4 starfsmenn. Við áttum yndislega stund upp á fjallinu og á leiðinni. Stelpurnar voru hörkuduglegar og klifum við fjallið á mettíma. Þegar við komum niður í hús fengum við okkur smá hressingu fyrir svefninn. Stelpurnar voru enga stund að sofna eftir langan en skemmtilegan dag.
-Bára Sigurjónsdóttir, forstöðukona