Árið 2005 stóð KFUM og KFUK á Ísland, Biskupsstofa, Æskulýðssamband kirkjunnar í Reykjavíkurprófastsdæmunum og Æskulýðsnefnd Kjalarnessprófastsdæmis að gerð siðareglna og heilræða fyrir fólk sem starfa með börnum og unglingum. Þessar reglur voru leystar af hólmi í starfi KFUM og KFUK með gerð siðareglna Æskulýðssvettvangsins vorið 2012. Eldri siðareglur og heilræði eru hér fyrir neðan.
Siðareglur fyrir fólk sem starfar með börnum og unglingum
- Í kristilegu starfi með börnum og unglingum skal leitast við að fræða börn og unglinga um kristna trú, kristið gildismat og iðkun trúarinnar. Jafnframt að leiða þau til samfélags við hinn lifandi Guð og frelsarann.
- Ávallt skal að stuðla að heilbrigðu, uppbyggjandi og skemmtilegu starfi með börnum og unglingum, jafnframt skal leitast við að eiga góð tengsl við börn og unglinga.
- Starfsfólk skal leitast við að bera fagnaðarerindi Krists vitni í orði og verki.
- Öll neysla tóbaks, áfengis eða annarra vímuefna er með öllu óheimil í starfi með börnum og unglingum.
- Ekki skal fara í manngreinarálit í samskiptum við börn og unglinga, vegna kynferðis, stöðu, skoðana eða trúar.
- Finna skal úrræði til að koma í veg fyrir andlegt eða líkamlegt ofbeldi hvers konar.
- Ekki skal stofna til óviðeigandi sambands við börn eða unglinga sem sækja starfið.
- Gæta skal trúnaðar og þagmælsku um hvað eina sem starfsfólk verður áskynja í starfinu. Þagnarskylda á ekki við þegar mál koma upp er varða ákvæði um tilkynningarskyldu (sbr. IV. kafla Barnaverndarlaga, nr 80/2002).
- Ætíð skal stuðla að velferð barna og unglinga. Starfsfólk skal ávallt vera upplýst um lög og reglur sem gilda um börn og unglinga. Ef starfsfólk verður þess áskynja að barn búi við óviðunandi heimilisaðstæður eða er þolandi alvarlegs ofbeldis skal tilkynna það barnaverndaryfirvöldum.
- Kappkosta skal að eiga góð samskipti við samstarfsfólk (leiðtoga, yfirboðara o.s.frv.) og leita eftir fræðslu og kristnu samfélagi. Gæta skal vandvirkni og heiðarleika í starfi og að orð og athæfi samrýmist því starfi sem viðkomandi gegnir.
- Starfsfólk skal gera köllun sína ljósa í starfi með börnum og unglingum og sýna trúnað þeim evangelísk-lúterska játningargrundvelli sem starfið byggir á.
Heilræði fyrir fólk sem starfar með börnum og unglingum
Hafðu í huga í starfi með börnum og unglingum að …
- bera ætíð virðingu fyrir þeim sem þú starfar með og láta þér annt um vel¬ferð og líðan þeirra.
- þú ert í föruneyti barnsins eða unglingsins á leið þess að því að verða fullvaxta manneskja. Að þú ert samferða og það felur ekki í sér að vita alltaf betur eða geta meira, heldur hlusta og vera nálægur.
- þú ert eldri, berð ábyrgð og ert fyrirmynd. Vertu þú sjálf/ur og vertu samkvæmur sjálfri/um þér.
- gefa af þér, en gættu að hvar mörkin liggja. Að gefa af sér merkir ekki að starfs¬maður deili vandamálum sínum með börnum og unglingum í starfi.
- hafa skopskyn getur haft mikið að segja í starfi, en það má aldrei vera gróft, tví¬rætt eða niðrandi fyrir aðra.
- í samskiptum við börn og unglinga hefur þú sterkari stöðu en börnin og unglingarn¬ir sem þú vinnur með. Varastu að misnota þér þá stöðu.
- það er ekki góð hugmynd að sjá ein/n um samverur með börnum eða unglingum eða fara ein/n með hóp í ferðalag. Hafðu vit fyrir yfirmönnum þínum ef þeir ætla að senda þig eina/n.
- krakkarnir vilja að þú sért sá fullorðni, en um leið hlustaðu á þau og taktu þátt í því sem þau eru að gera. Taktu virkan þátt í þeirri dagskrá sem er í boði og sýndu henni áhuga.
- vera ekki ein/n með barni eða unglingi. Ef barn eða unglingur vill tala við þig einslega, gættu þess þá að aðrir starfsmenn viti af því og að einhver sé nærri. Starfs¬maður ætti ekki að aka börnum heim úr starfi nema með vitneskju foreldra.
- eiga gott samstarf við foreldra og forráðamenn og upplýsa þá um starfið og það sem þar fer fram.
- snerting er stundum viðeigandi en hún getur auðveldlega misskilist. Stundum er betra að standa fyrir utan leiki sem fela í sér mikla snertingu.
- vera vel undirbúin/n fyrir samverur. Krakkarnir sjá fljótt ef þú ert óundirbúinn. Helgi¬hald¬ið er mikilvægur þáttur í starfinu og oft þarf að aðlaga það að þeim hópi sem þú ert með. Mundu að það sem barnið upplifir og lærir í samræðum skilar meiru en langar orðræður.
- þekkja og virða takmörk þín, og leita þér hjálpar ef illa gengur. Margt getur komið uppá í starfinu sem krefst mikils af þér. Hikaðu ekki við að leita ráða hjá þeim sem þú treystir.
- sjaldnast fáum við að velja samstarfsfólkið okkar. Lykillinn að góðu samstarfi er að ræða þau vandamál sem upp koma og vera tilbúin/n að líta í eigin barm. Varastu að ræða málefni annarra starfsmanna við þátttakendur.
- þú ert aldrei ein/n á ferð, Jesús er alltaf með í för. Mundu eftir því að þú og Guð þurfið tíma saman. Mundu eftir að biðja fyrir starfinu og vera í samfélagi við annað trúað fólk.
Unnið sem samstarfsverkefni árið 2005 af:
- KFUM og KFUK á Íslandi
- Biskupsstofu
- Æskulýðssamband kirkjunnar í Reykjavíkurprófastsdæmunum
- Æskulýðsnefnd Kjalarnessprófastsdæmis