Nú um helgina var haldið í Vatnaskógi landsmót unglingadeilda KFUM og KFUK á Íslandi og á sunnudeginum var í fyrsta sinn haldið Landsþing unga fólksins í KFUM og KFUK og var því alfarið stýrt af unglingunum sjálfum. Þátttakendur á mótinu komu frá Akureyri, Grindavík, Hveragerði, Keflavík, Kópavogi, Mosfellsbæ, Reykjavík, Sandgerði og Vestmannaeyjum. Yfirskrift mótsins var Paradís og veltum við því fyrir okkur hvort við getum, með Guðs hjálp, sýnt hvert öðru meiri kærleika og gleði og þannig reynt að efla Guðs ríki hér á jörð.
Á Landsþinginu á sunnudeginum voru tekin fyrir ýmis umræðuefni sem fulltrúar unglinganna í ungmennaráði höfðu áður undirbúið. Tveir fulltrúar úr ungmennaráði stýrðu umræðunni í hverjum hóp, sem voru alls 4 talsins með um 20 unglingum í hverjum hóp. Kom meðal annars fram í umræðunum að vilji er fyrir auknu og öflugra starfi KFUM og KFUK. Unglingarnir vilja lengja starfsárið, fá fleiri mót og sumarmót og sameiginlega fundi og viðburði unglingadeilda. Þá vilja þeir öflugra kynningastarf svo fleiri viti hve frábært starfið er og nefndu þau bæði auglýsingar í blöðum og sjónvarpi og kynningar í skólum. Þau eru ánægð með sumarbúðirnar en vilja fleiri blandaða flokka og helst ódýrari líka.
Þau ræddu um samskipti skóla og trúfélaga í ljósi nýrra reglna í Reykjavík. Þau lýstu furðu yfir því að nemendur hafa ekki verið spurðir álits og töldu að nemendur almennt vildu hafa skólann opnari og að foreldrar og nemendur ættu að fá að ráða þessu.
Næsta umræðuefni unglingana var kynlíf og kom fram áhersla á að enginn ætti að stunda kynlíf fyrr en hann eða hún er tilbúinn og einungis með einhverjum sem maður treystir og elskar því annars er það tilgangslaust. Verð á smokkum er of hátt að mati unglinganna og eykur það líkurnar á óvörðu kynlífi og ótímabærri þungun.
Þá var tekin fyrir umræða um verð í strætó og mátti heyra að unglingarnir frá Akureyri og Keflavík voru ánægð með að það væri frítt í strætó í þeirra bæjarfélögum en unglingum af höfuðborgarsvæðinu blöskraði hve dýrt það er að ferðast með strætó og vildu þau kalla eftir ódýrara fargjaldi fyrir t.d. 12-18 ára.
Ungmennaráð KFUM og KFUK á Íslandi mun næst koma saman helgina 13.-14. apríl og undirbúa kynningu fyrir Landsfund KFUM og KFUK á Íslandi sem fram fer á Holtavegi 28 laugardaginn 14. apríl. Það er félaginu okkar afar mikilvægt að fá að heyra skoðanir og hugmyndir unga fólksins okkar og í því liggur ekki bara fjársjóður framtíðarinnar heldur einmitt stærsti fjársjóður dagsins í dag.