Komandi helgi, 24.-26. febrúar, verður unglingalandsmót KFUM og KFUK haldið í Vatnaskógi. Von er á um 130 unglingum og leiðtogum í Vatnaskóg þar sem boðið verður upp á skemmtilega dagskrá undir yfirskriftinni „Paradís“.
Á mótinu að þessu sinni verður í fyrsta sinn boðað til landsþings ungs fólks í KFUM og KFUK en hver unglingadeild hefur tækifæri til að útnefna einn fulltrúa í unglingaráð félagsins sem mun starfa sem rödd unglinga á aldrinum 13-16 ára á vettvangi KFUM og KFUK.
Mótið hefst með formlegum hætti með kvöldvöku kl. 21:00 á föstudeginum og endar á sunnudeginum í gospelmessu hjá Hallgrímssöfnuði á Saurbæ kl. 14:00.