Íslendingarnir eru nú komnir aftur heim frá Evrópumóti KFUM í Prag og er óhætt að segja að mótið hafi tekist gríðarlega vel. Hér á eftir er birt „Dagbók ferðalangs“ sem undirrituð hélt á meðan á mótinu stóð en glefsur úr henni hafa þegar verið birtar á síðunni. Hér er dagbókin í heild sinni en þar er ýmislegt sem ekki hefur verið birt áður.
Meðal þess sem sagt er frá er heimsmeistaratitill Íslendinga í fótbolta og stórglæsileg framistaða íslenska sýningarhópsins.
Þriðjudagurinn 5. ágúst
Nú erum við búin að vera hér í tvo daga og flestir búnir að kynnast staðaháttum og ferðum nokkuð vel. Hér eru 120 íslendingar en á mótinu sjálfu eru tæplega 7000 manns. Við höfum fengið að upplifa ýmislegt en það er nokkuð misjafnt hvar einstakir hópar halda til. Við höfum tekið þátt í mega-kór, farið á ýmis konar smánámskeið og kynnst fullt af fólki frá öðrum löndum…og jú, við höfum líka verslað og flestir pokarnir komu úr HM. Sá dagskrárliður sem fæstir missa af er kvöldvakan og kvölddagskráin. Á kvöldvökunum spilar frábær hljómsveit frá Noregi og heldur uppi stuði á milli atriða. Atriðin sjálf hafa verið ótrúlega flott m.a. heimsmeistarar í snú snú sem sýndu ótrúlega fimleikaatriði á meðan þau hoppuðu inn og út úr tvöföldu snú snú bandi. Þá höfum við fengið að heyra magnaðar sögur frá öllum heimshornum.
Kvölddagskráin tekur svo við af kvöldvökunni og þar er að finna allt frá bíósýningum til stórtónleika. Í gærkvöldi voru tónleikar með hljómsveitinni Four Korners sem voru algjörlega magnaðir.
Maturinn hérna er alveg ágætur og í raun betri en búast mátti við. Það er alltaf val um þrjá rétti þ.a. einn grænmetisrétt. Á kvöldin er heitur matur og í hádeginu eru samlokur.
Íslenska tjaldið hefur verið vel sótt enda fólk forvitið um þetta furðulega land í norðri. Við munum svo sannarlega eignast marga nýja vini hér. Í gærkvöldi sat hluti Íslendinganna eftir á svæðinu á meðan fólk var að fara út og söng þjóðleg íslensk lög eins og Ísland farsælda frón og Traustur vinur. Hápunkturinn var að syngja þjóðsönginn er við gengum burt af svæðinu.
Hér er fólk frá öllum heimshornum. Flestir eru auðvitað frá Evrópu enda Evrópumót en hér eru líka gestir frá Bandaríkjunum, Kanada, Indlandi, Togo, Columbiu og fleiri löndum. Þar sem ég sit hérna á Global-Kaffihúsinu er ung stúlka frá Indlandi fyrir aftan mig að segja þátttakendum frá lífi sínu sem alnæmissmitaðrar en hún fékk sjúkdóminn í arf frá móður sinni. Það er magnað að heyra hana segja frá og fræða fólk um sjúkdóminn og alvarleika hans á Indlandi og öðrum löndum í Asíu og Afríku. Maður lítur svo sannarlega í eigin barm og veltir því fyrir sér hvað maður geti gert til að hjálpa.
Guð blessi ykkur öll,
Ásta
Miðvikudagurinn 6. ágúst
Í dag var mikið um að vera. Íslenski hópurinn hittist í hádeginu og átti góða stund saman í besta veðri sem hefur verið hingað til. Veðrið hefur reyndar leikið við okkur allan tímann en dagurinn í dag er óvenju heitur og blankalogn. Sannkölluð bongóblíða. Út um allt hátíðarsvæðið er fólk skvettandi vatni hvert á annað og hlátrasköll og skríkir heyrast hvarvetna. Aðrir eyða heitustu stundunum í skugga trjánna og spjalla saman milli dagskráratriða. Hluti íslenska hópsins fór í dag á salsanámskeið á meðan aðrir skruppu í fótbolta í blíðunni.
Í gær sá Íris Rut um smánámskeið í ullarþæfingu sem gekk afar vel og komust færri að en vildu. Fólk var mjög forvitið um þessa undarlegu aðferð við að vinna ull.
Í kvöld var svo eld-og-ísmessa í umsjá Íslendinganna sem gekk mjög vel. Fengu þátttakendur ísmola í hendina sem átti að tákna harðneskju og þrjósku mannanna og fengu þeir að finna hvernig ísmolinn bráðnaði í hendinni líkt og kærleikur Guðs bræðir harðneskjuna úr hjörtum okkar. Það var mjög áhrifaríkt. Nú er kvöldið framundan með öllum ævintýrunum. Meðal annars verður “silent disco” sem fer þannig fram að allir eru með sinn eigin ipod eða mp3spilara og dansa með eftirlætis tónlistina sína í eyranu. Það verður mjög fróðlegt að sjá.
Bestu kveðjur úr sólinni,
Ásta
Fimmtudagurinn 7. ágúst
Í dag var hátíðin færð af hátíðarsvæðinu í Vystavista garðinum og inn í Prag. Ástæðurnar fyrir þessu eru að gefa þátttakendum tækifæri til að sjá þessa yndislegu borg sem við erum í og til þess að vekja athygli á starfi KFUM meðal íbúa Prag. Hér hefur talsvert verið fjallað um mótið í fjölmiðlum og borgaryfirvöld hafa verið sérstaklega liðleg við framkvæmdina. M.a. var sérstökum sporvagni bætt við almenningssamgöngurnar sem þjónar einungis hátíðarsvæðinu og hostelunum sem við gistum á. Svo eru þeir sporvagnar sem aka framhjá hátíðarsvæðinu sérstaklega merktir og tilkynnt í hátalarakerfið þegar komið er á staðinn.
Til þess að vekja athygli á “city-action-day” eins og dagurinn er kallaður voru skipulagðar nokkrar skrúðgöngur sem gengu um borgina, höfðu hátt og afhentu gangandi vegfarendum auglýsingamiða fyrir hátíðardagskránna í bænum. Þarna var einskrúðganga frá Þýskalandi, ein frá Danmörku, önnur frá Svíþjóð og jú jú, einmitt skrúðganga frá Íslendingum. Krakkarnir úr Meme hópnum ásamt áhangendum og aðdáendum gengdu fylktu liði um götur Prag syngjandi Öxar við ána, hæ hó jibbíei og jibbíei, Who is the king of the jungle auk ýmissa alþjóðlega slagara, allt í bland á ensku og íslensku. Þetta var mikið stuð. Um eftirmiðdaginn var glæsileg dagskrá á sviði á Naméstí Miru sem er torg friðarins í Prag og þangað komu margir bæði hátíðargestir og Pragbúar.
Á morgun er svo lokadagurinn, því laugardagurinn er heimferðardagur. Tíminn er búinn að líða ótrúlega hratt hérna enda margt um að vera.
Meira á morgun,
Sólarkveðja,
Ásta
Föstudagurinn 8. ágúst
Í dag er svo sannarlega stóri dagurinn. Íslendingar hömpuðu í fyrsta sinn heimsmeistaratilti í fótbolta. Íslenska KFUM-landsliðið náði fyrsta allra landsliða þessum frábæra árangri. Liðið sem var skipað helstu fótboltakempum félagsins lagði Englendinga í undanúrslitum og unnu Þjóðverja í vítaspyrnukeppni í úrslitum. Vel að verki staðið þar.
Í kvöld mun íslenski sýningarhópurinn sýna atriðið sem þau hafa verið að æfa í 10 mánuði en ég hef aldrei fengið að sjá. Ég veit að þau hafa verið að æfa alls kyns loftfimleika og eldspýingar, ég veit að þau ætla að útbúa skriðjökul og ég hef frétt að einn búiningurinn vegi heil 10 kíló. Ég er vægast sagt mjög spennt. Það er frábær stemning í íslenska hópnum fyrir kvöldið. Við höfum ákveðið að hópa okkur saman, við erum með tvo stóra íslenska fána sem við ætlum að halda á lofti og svo er planið að öskra og æpa eins og sannir Frónbúar. Það er líka ákveðinn tregi í loftinu því að á morgun er þessu lokið og þá fer hver heim til sín. Við erum búin að eiga mjög góðar stundir hérna, kynnst nýju fólki, bæði Íslendingum og Erlendingum, við erum búin að prófa margt nýtt og getum svo sannarlega verið stolt af framlagi okkar á þessu móti.
Laugardagurinn 9. ágúst
Þau voru alveg stórkostleg í gær. Íslenski sýningarhópurinn tók svo sannarlega kvöldið með trompi og orðið á götunni var að þetta hefði verið flottasta atriðið á mótinu. Það var líka mjög áhrifamikið enda voru fagnaðarlætin gríðarleg. Ég ætla að reyna að útvega myndband af atriðinu og henda upp á síðuna svo þið getið séð.
Annars er spennufallið gríðarlegt, fólk er að átta sig á því að það þarf að pakka og koma sér af stað heim aftur. Kveðjur hljóma gjarnan “Sjáumst eftir 5 ár” en þá verður næsta mót haldið…svo fylgist vel með.
Allir til Prag 🙂
Ásta