Hauststarfi aðaldeilda (AD) KFUM og KFUK lauk formlega síðasta þriðjudag, 6. desember með vel heppnuðum og vel sóttum aðventufundi KFUM og KFUK. Fundurinn hafði yfirskriftina „Trúin er að treysta“, og á honum var aldarminning Sigurbjörns Einarssonar biskups heiðruð.
Aðventufundurinn var sameiginlegur hjá deildunum tveimur, eins og löng hefð er fyrir, en AD-nefndir KFUM og KFUK skiptast á að undirbúa fundinn. Í ár var undirbúningur í höndum AD-nefndar KFUK, en hana skipa Margrét Möller, Þórdís K. Ágústsdóttir, María Aðalsteinsdóttir og Sigrún Gísladóttir.
Fyrsti fundur AD KFUK á nýju ári verður þriðjudaginn 10. janúar. Yfirskrift þess fundar er „Ég er hið lifandi vatn", en þá verður biblíulestur í umsjón Sr. Irmu Sjafnar Óskarsdóttur. Stjórnun fundarins er í höndum Margétar Möller.
Fyrsti fundur AD KFUM á nýju ári verður fimmtudaginn 12. janúar.
Vordagskrá aðaldeilda KFUM og KFUK verður dreift til félagsfólks ásamt Fréttabréfi félagsins fyrir jólin.
Allar konur eru hjartanlega velkomnar á fundi AD KFUK á þriðjudagskvöldum í húsi félagsins að Holtavegi 28, Reykjavík, og allir karlmenn eru hjartanlega velkomnir á fundi AD KFUM á fimmtudagskvöldum á sama stað. Allir fundirnir hefjast kl.20.
Starfsfólk Þjónustumiðstöðvar KFUM og KFUK þakkar nefndum og gestum AD KFUK og KFUM fyrir ánægjulegt samstarf í haust og hlakkar til starfsins að vori 2012.