Basar KFUK verður haldinn í 102. sinn á morgun, laugardaginn 26.nóvember kl.14-17 í húsi KFUM og KFUK að Holtavegi 28, Reykjavík.
Í hugum margra er basar KFUK orðinn fastur liður í jólaundirbúningnum, en finna má alls kyns góðgæti úr smiðju KFUK-kvenna og aðstoðarfólks þeirra á boðstólnum, s.s. jólasmákökur, brauð, bollur, tertur og sultur. Gullfallegt og vandað handverk af ýmsum gerðum verður til sölu, s.s. prjónavörur, heklaðir og útsaumaðir dúkar, jólakúlur, handgerðir englar, og ótalmargt fleira.
Basarinn er árlegur viðburður og hefur verið haldinn á þessum tíma árs í 101 ár. Hann er afar mikilvæg fjáröflunarleið fyrir starfsemi KFUM og KFUK á Íslandi, en allur ágóði hans rennur til félagsins.
Nýbakaðar ilmandi vöfflur, heitt kaffi og kakó verða á boðstólnum á basarnum, og gestir geta sest niður, notið dagsins og átt notalega samveru. Lukkupakkar fyrir yngstu kynslóðina verða einnig til sölu.
Hér sést leið að húsi KFUM og KFUK að Holtavegi 28 á korti.Allir eru hjartanlega velkomnir á basarinn á morgun!