Sunnudaginn 3. júlí var sænskur dagur í Vindáshlíð. Hljómsveitin ABBA vakti stúlkurnar með hressum tónum og fyrir morgunverðinn var borðsöngurinn fluttur á sænsku. Einnig gladdi ABBA okkur með nærveru sinni og músík við morgunverðarborðið. Kókópuffs mátti sjá á morgunverðarborðinu, innan um hinn hefðbundna Vindáshlíðarmorgunmat en ástæða þess var sú að nú eru allar stúlkurnar orðnar Hlíðarmeyjar, því þær hafa nú sofið hér í þrjár nætur. Að morgunverði loknum var fánahylling og svo tók við biblíulestur þar sem stelpurnar sungu og lærðu að Guð er góður hirðir sem lætur sér annt um okkur. Svo voru brennókeppnir, vinabandagerð, kort og frímerki voru til sölu og stelpurnar kepptu í stigahlaupi.
Í hádegismat var ákaflega góður grjónagrautur og á meðan stúlkurnar borðuðu sig saddar sýndu foringjar nokkur sænsk skemmtiatriði. Lína langsokkur steig á stokk ásamt Litla karli, hestinum sínum og Níels apa og einnig lét Emil í Kattholti sjá sig. Eftir hádegi söfnuðust stelpurnar saman í kvöldvökusalnum og dunduðu sér við að spila, gera vinabönd, húlla og fleira á meðan þær biðu eftir því að vera kallaðar fram í Lífsgönguna. Lífsgangan er upplifunarleikur þar sem þátttakendur eiga að fylgja bandi með bundið fyrir augun. Að henni lokinni var boðið upp á boltaleiki í íþróttahúsinu.
Í kaffitímanum fengu stelpurnar brauðbollur og sænska skúffuköku og eftir kaffi var keppt í brennó og húllakeppni.
Í kvöldmatinn voru ljúffengar, sænskar kjötbollur með kartöflum, sósu og salati. Eftir kvöldmat var messa í Hallgrímskirkju í Vindáshlíð þar sem stelpurnar sungu og fengu að heyra merkilega sögu kirkjunnar en kirkjan var eitt sinn á Saurbæ og var svo flutt hingað. Einnig sáu þær leikþátt og heyrðu hugleiðingu um Sakkeus og lærðu að Jesús elskar alla menn og fer ekki í manngreinarálit. Eftir kirkjustundina var kirkjukaffi og fengu stelpurnar rjúkandi heitt og ljúffengt kakó og kanillengjur sem höfðu fyllt húsið góðum ilmi fyrr um daginn. Gott ef þetta minnti ekki bara á jólin…
Loks gerðu stúlkurnar sig klárar í háttinn og herbergin áttu stund með sinni bænakonu í lok dagsins en þó var ekki allt gamanið búið því skömmu eftir að bænakonurnar höfðu kvatt komu þær aftur og sögðu stúlkunum að koma inn í setustofu í leik. Leikurinn virtist þó ekkert sérlega skemmtilegur. Skyndilega ómaði jólatónlist og opnað var frá setustofunni inn í jólaskreyttan matsalinn. Mikil gleði greip um sig í hópnum og hópuðust stúlkurnar í kringum jólatréð og byrjuðu að syngja og dansa. Hurðaskellir mætti svo í fjörið og bauð þeim öllum piparkökur og áfram var sungið og dansað. Jólaguðspjallið var flutt og síðan var stelpunum tilkynnt að þær fengju að sofa aðeins lengur morguninn eftir. Þær fóru í háttinn og sofnuðu sælar og glaðar eftir óvænt jól í júlí.
Bestu kveðjur úr Hlíðinni!