Sumarsólin skein í heiði í Vatnaskógi í gær. Hádegismaturinn var borðaður utan dyra, en grillaðar voru pylsur fyrir drengina. Eftir hádegismat opnuðu bátarnir og fóru margir á þá, en langflestir nýttu sér sólskinið og fóru í Oddakot, sandströnd í Vatnaskógi og lágu í sólbaði, óðu í vatninu og busluðu. Það mældist vel fyrir.
Kaffitíminn fór svo fram í Oddakoti, og þeir sem höfðu verið á bátum komu í Oddakot sérstaklega í kaffið svo allir væru saman. Bátarnir og þessi sólbaðs- og buslferð voru vinsælustu dagskrárliðirnir í gær, en einnig var góð mæting í bikarkeppnina í fótbolta, auk þess kraftakeppnin hélt áfram um kvöldið og heitu pottarnir og hoppukastalarnir voru opnir. Þá hófst líka keppni í kúluspili og þythokkí.
Á kvöldvökunni fengu þeir drengir sem vildu sjálfir að vera með atriði og tókst þessi hæfileikasýning vel upp. Það voru þreyttir en glaðir drengir sem sofnuðu fljótt eftir viðburðaríkann dag og voru strákarnir allir sammála um það að dagurinn hefði liðið ótrúlega hratt. Einhverjir sólbrunnu lítillega jafnvel þó starfsmenn hefðu séð til þess að allir drengirnir bæru á sig sólarvörn í hádeginu. En enginn er þó illa bruninn og starfsmenn létu þá sem sólbrunnu lítillega bera á sig "After Sun" krem í gærkvöld og svo aftur í morgun.
Í dag er sólin ekki nærri því eins sterk, en þó er ennþá logn og fínasta bátaveður. Smíðastofan er opin og bikarkeppnin í fótbolta heldur áfram, auk þess sem margir aðrir skemmtilegir viðburðir eru í boði þennan síðasta venjulega dag flokksins, því á morgun er svo Veisludagur og svo er farið heim á sunnudag.