Enn gengur allt vel í Vatnaskógi, og ekkert útlit fyrir neitt annað. Eina sem setur strik í reikninginn er að nokkuð vindasamt hefur verið þessa fyrstu þrjá daga og því hafa drengirnir ekki enn fengið tækifæri til að fara á bátana. Þó var boðið upp á útsýnisferðir með Geirlaugi foringja á einum af björgunarbátum staðarins. Voru um 50 drengir af 85 sem nýttu sér það tilboð og fengu því smá nasaþef af Eyrarvatni. En vonandi lægir á morgun, svo hægt sé að hleypa drengjunum sjálfum út á árabáta, að sjálfsögðu þó undir ströngu eftirliti starfsmanna.
Í dag fóru flestir drengjanna í spennandi ævintýragönguferð út í skóg að loknum hádegismat, en í matinn var plokkfiskur. Smíðaverkstæðið hefur verið vinsælt og sömuleiðis hoppukastalarnir, en í gærkvöld var skemmtilegur og fjölmennur leikur í einum af hoppuköstulunum innandyra í íþróttahúsinu.
Keppni í knattspyrnu hefur gengið vel og sömuleiðis hefur verið boðið upp á kraftakeppni margt fleira, auk þess sem sumir hafa farið í heitu pottana og farið í Frúna í Hamborg.
Ró var komin á staðinn 22.45 í gærkvöld eftir skemmtilega kvöldvöku. Drengirnir sungu hátt og snjallt með lögunum, sáu leikrit og spennandi stuttmynd í tveimur hlutum sem gerist í Vatnaskógi, auk þess sem Ásgeir foringi sagði söguna af Sakkeusi úr Biblíunni.
Myndir frá degi 1 og 2 eru komnar inn og má sjá þær
hérna. Myndir frá þriðja degi koma vonandi inn sem fyrst.
Þorkell Gunnar Sigurbjörnsson og Sigurbjörn Þorkelsson
forstöðumenn í 5. flokki