Nú um nýliðna helgi, 22.-24.október fór Samráðsþing stjórna, starfsmanna og starfssviða KFUM og KFUK á Íslandi, fram í Vindáshlíð í Kjós.
Þingið var vel sótt, en á því voru alls um 80 þátttakendur sem komu bæði frá starfsstöðvum á höfuðborgarsvæðinu og á landsbyggðinni. Afar ánægjulegt var að makar og börn margra starfsmanna voru með í för.
Nærveru erlendra gesta naut einnig við á Samráðsþinginu. Meðlimir YERT-teymisins (YMCA European Resource Team), sem starfar á vegum Evrópusambands KFUM tóku virkan þátt í þinginu og skipuðu mikilvægan sess í dagskrárliðum þess. Markmið YERT-teymisins er að hjálpa KFUM-félögum í Evrópu að rýna inn á við og skoða hvernig gera megi betur og verða sterkari félög. Þetta er gert út frá þremur viðmiðum sem eru: Skýr hugsjón (mission clarity), dagskrártilboð með samfélagslegri skírskotun (social relevance) og traustir inniviðir (institutional viability). Þau sem eru í YERT teyminu eru öll frá Bretlandi og vinna þetta verkefni sem sjálfboðaliðar.
Dagskrá þingsins gekk vel fyrir sig, en hún hófst með kvöldverði föstudaginn 22.október. Að honum loknum kynntu meðlimir YERT niðurstöður spurningalistakönnunar sem var gerð meðal starfsfólk fyrr á árinu, um fyrrgreind atriði (viðmið), og í kjölfarið voru þau rædd í umræðuhópum. Þá var haldinn opinn fulltrúaráðsfundur. Kvöldinu lauk með góðri síðkvöldssamveru og helgistund í umsjá séra Jóns Ómars Gunnarssonar.
Fyrir hádegi laugardaginn 23.október var uppbyggileg morgunstund í boði fyrir þátttakendur þingsins, sem Auður Pálsdóttir hafði umsjón með, en þar næst sá YERT-teymið um kynningu og vinnu í umræðuhópum. Að því loknu flutti Gunnar J. Gunnarsson, lektor við HÍ, erindi um ,,K-ið“ í starfi KFUM og KFUK, og H-in þrjú; hug hjarta og hönd, í starfi félaganna. Að erindi hans loknu ræddu þátttakendur um þessi málefni í umræðuhópum.
Eftir ljúffengan hádegisverð hófust eftifarandi sviðsfundir:
Formannafundur sumarbúðanna
Fjármálafundur
Fundur um kynningarmál
Forstöðumannafundur æskulýðssviðs
Síðdegis á laugardag voru haldnar kynningar og opnar málstofur um málefni félaganna. Að loknum kvöldverði var boðið upp á kvöldvöku, og að henni lokinni, helgistund í umsjá Þráins Haraldssonar.
Fyrir hádegi sunnudaginn 24.október var Viðburðadagatal ársins 2011 tekið fyrir, þar sem dagsetningar voru ákveðnar fyrir þá viðburði sem félagið og starfsstöðvar þess munu standa fyrir.
Samráðsþinginu lauk með Guðsþjónustu í Hallgrímskirkju í Vindáshlíð.
KFUM og KFUK á Íslandi þakka þátttakendum, skipuleggjendum og starfsfólki Samráðsþingsins fyrir ánægjulega helgi.