Hressar og spenntar 10-12 ára stelpur komu í Ölver í dag, ýmist með rútunni eða keyrðar af foreldrum. Sumar voru bara spenntar, aðrar með lítinn kvíðahnút í maganum yfir því að fara í sumarbúðir í fyrsta sinn.
Sem fyrr var byrjað á því að raða í herbergi og passað upp á að vinkonur og þær sem vildu væru saman í herbergi fengju það. Þetta gekk vel fyrir sig og allar sáttar að lokum. Eftir hádegismat fóru þær svo í gönguferð um svæðið og í leiki úti í blíðviðrinu sem hér er. Svo var kaffitími og eftir það kennsla í brennó sem er aðalíþróttagreinin hér. Svo var frjáls tími, þær sem vildu fóru í pottinn, aðrar voru í boltaleikjum og enn aðrar undirbjuggu skemmtiatriði fyrir kvöldvökuna sem var eftir kvöldmat. Þar var glatt á hjalla og stelpurnar sungu og hlustuðu vel á hugleiðingu kvöldsins. Eftir kvöldkaffi komu bænakonur í hvert herbergi eins og venjan verður á hverju kvöldi og lásu og báðu bænir. Ró var svo komin í húsið um kl. 23.
Myndir frá deginum má sjá hér:
Bestu kveðjur,
Björg Jónsdóttir forstöðukona