Veðrið lék við Skógarmenn í gær. Blankalogn var og þrátt var nokkur ský var góður hiti. Dagurinn var því nýttur til útiveru og leikja. Eftir morgunstund var farið í knattspyrnu og íþróttir. Að loknum hádegismat var svo komið að aðalatriði dagsins að mati flestra drengjanna, Vatnafjörið. Niður við vatn var hægt að vaða og synda undir góðu eftirliti foringja. Margir vildu líka láta reyna á kraftana og fóru í koddaslag sem endaði á því að annar hvor keppandinn féll út í vatnið. En þá er gott að muna að enginn er verri þó hann vökni! Það voru fjölmargir sem tóku þátt í þessu eða brugðu sér út á bát.
Hér eru einnig margir knattspyrnuáhugamenn sem hvíldu sig á hasarnum og fylgdust með leik Portúgals og Brasilíu.
Þá var komið að kaffitíma, þar er boðið upp á heimalagað bakkelsi úr eldhúsi staðarins, þrjár sortir sem falla ávallt í góðan jarðveg. Eftir kaffi hélt dagskráin svo áfram, með lokum knattspyrnumótsins, spilaður körfubolti, bátar og margt fleira. Í bátaskýlinu er einnig smíðastofa þar sem drengirnir geta tálgað, smíðað og gert listaverk úr timbri úr skóginum sem er hér allt í kringum okkur. Skógurinn er einnig mikið notaður til útiveru og leikja.
Dagurinn endaði svo líkt og aðrir á kvöldvöku, þar sýna foringjarnir leikrit og drengirnir bíða spenntir eftir lestir kvöldsins á framhaldssögu flokksins. Að lokum er svo hugleiðing þar sem sögð er biblíusaga og talað um Guðs orð.
Nú í morgunsárið er gott veður, drengirnir voru vaktir kl. 08:30 og farið var í smá morgunleikfimi. Nú er verið að vinna í því að setja upp þrautabraut sem verður opin eftir hádegismat og seinna í dag er stefnan sett á sundferð. Flokkurinn hefur gengið afskapalega vel enda ljúfir og skemmtilegir drengir.
Þráinn Haraldsson, forstöðumaður.