Sumarstarfið hófst í Ölveri í dag þegar rúmlega 30 stúlkur mætti til leiks í listaflokk. Við byrjuðum á hádegsimat, samhristingi og svo var öllum úthlutuð svefnpláss. Þá tók við samverustund þar sem við ófum kærleiksvef úr ullarbandi. Við bjuggum svo til gestabók úr kossaförum og stúlkurnar teiknuðu sjálfsmyndir sem fóru upp á vegg. ÞAð var gaman að sjá svo marga upprennandi listamenn í hópnum. Í frjálsa tímanum var í boði að gera vinabönd, fara í brennó eða bara að skoða sig um. Í góða veðrinu grilluðu stelpurnar pulsur og sykurpúða og nutu útiverunnar í leiktækjunum eða sungu við undirspil kassagítars og trommuleiks í lautinni. Þetta var eitt af þessum fullkomnu sumarkvöldum í sveitinni. Kolailmur, fuglasöngur og kvöldsólin í birkilundinum. En núna erum við komnar inn og innan úr sal berst hlátur og söngur. Kvöldvakan er í fullum gangi og leikritið í höndum stúlknanna í Lindarveri er að byrja.
Þetta eru starfsmenn flokksins:
Margrét Rós Harðarsdóttir, listakona og æskulýðsstarfsmaður í Vídalínskirkju
Ásdís Björnsdóttir, framhaldsskólakennari
Katrín Aikins, prestur og tónlistarkona
Gunnfríður Tómasdóttir, klæðskeranemi og förðunarfræðingur
Halla Þórlaug Óskarsdóttir, myndlistarnemi
Matthildur Bjarnadóttir, guðfræðinemi
Auk þess höfum við Huldu aðstoðarleiðtoga okkur til halds og trausts í nokkra daga. Í eldhúsinu eru systurnar Erna og Kristbjörg og um þrif sér Þóra.
Vonandi getum við sett inn myndir sem fyrst.
Með kærri kveðju,
Listaflokkspæjur