Að vera „góðir“ samþegnar allrar jarðarinnar
Þýð. Þorgeir Arason
Ritningarlestur: Efesusbréfið 2.17-20
„Og hann [Kristur] kom og boðaði ykkur frið sem fjarlægir voruð, og frið hinum sem nálægir voru. Því að fyrir hans tilverknað getum við hvor tveggja nálgast föðurinn í einum anda. Þess vegna eruð þið ekki framar gestir og útlendingar heldur eruð þið samþegnar hinna heilögu og heimamenn Guðs. Þið eruð bygging sem hefur að grundvelli postulana og spámennina en Krist Jesú sjálfan að hyrningarsteini.“
Ekki lengur útlendingar,
ekki lengur án vegabréfs,
ekki lengur hindruð vegna peningaleysis,
ekki lengur í þörf fyrir vegabréfsáritun,
ekki lengur fjarræn,
ekki lengur rangt tungumál,
ekki lengur rangur húðlitur,
ekki lengur rangur fatnaður,
ekki lengur röng menntun.
Ekki lengur.
Því miður munu allflest heimshorn þurfa að bíða töluvert lengur eftir að verða samþegnar allrar jarðarinnar, sér í lagi ef skilgreining þess hugtaks felur í sér að tala í það minnsta svolitla ensku, að fljúga í flugvélum, að brosa til landamæralögreglunnar, og að vera umhugað um jörðina (jafnvel þó að kolefnisfótsporið eftir mann sé að eyðileggja hana).
Höfundur Efesusbréfsins talar um að áheyrendur hans séu samþegnar hinna heilögu. Góðar tekjur og hátt menntunarstig hafa ekkert með skilgreiningu þessa hugtaks að gera. Í huga hins forna höfundar þarf enginn að berjast fyrir rétti sínum til að teljast meðal samþegna hinna heilögu. Kristur kom. Kristur rauf öll landamæri. Kristur boðaði frið án tillits til fjarlægðar eða stéttarstöðu. Hér þarf enginn að greiða fyrir aðgang, engar mútur eru nauðsynlegar, engar skuldir við mansala, engin þörf á fingraförum eða stafrænum einkenniskortum. Það að vera
samþegn hinna heilögu er gjöf sem við eignumst án verka okkar. Hér þarf hvorki að standast próf né sýna fram á kunnáttu til að tala tungumál innfæddra.
Það er engin yfirstétt meðal heimafólksins og engir flokkar þeirra sem borga og hinna sem betla. Kristur er á ferðinni svo að enginn verði eftir sem útlendingur.
Á ritunartíma Efesusbréfsins tryggði rómverskur ríkisborgararéttur eða þegnskapur góða þjóðfélagsstöðu og öryggi. Rómverskur þegn gat fengið undanþágu frá skattgreiðslum eða lagabálkum heimamanna. Þrælar sem fengið höfðu frelsi (frelsingjar) gátu stundum keypt sér ríkisborgararétt. Þegar rómverska heimsveldinu óx ásmegin tóku þeir sem ekki voru af rómverskum uppruna einnig að geta keypt sér slíkan rétt. Þegnskapurinn var verðmætur. Í bréfinu til Efesusmanna býður Kristur þennan þegnskap endurgjaldslaust.
Hugtakið „samþegnar hinna heilögu“ endurskilgreinir merkingu þess að vera samþegn jarðarinnar. Ef við myndum fylgja Kristi myndi góður þegnskapur jarðarinnar merkja að velja að lifa í fátækt. Jörðin getur nefnilega ekki lengur staðið undir ofneyslu hinna ríku. Því merkir þetta hugtak að enduruppgötva hvatningu þings Alkirkjuráðsins í Nairobi árið 1975: „Lifið í einfaldleika svo að aðrir geti einfaldlega lifað.“
„Samþegnar hinna heilögu“ staðhæfa að það að vera samþegn jarðarinnar sé ekki bara eign yfirstéttarinnar, sem hún hafi greitt fyrir dýru verði. Við, sem ekki vill svo til að erum hluti yfirstéttarinnar, við erum ekki lengur sátt við að vera undir hælnum á „rausnarskap“ hennar eða samfélagslegri skipulagningu. Við erum einnig samþegnar, og raunar meira en samþegnar, við erum systur og bræður í Kristi. Við getum kennt og verið leiðtogar.
Þegnskapur allrar jarðarinnar virðir að vettugi flest heimshorn þegar hann er bundinn við þá sem hafa sérstaka, félagslega stöðu. Kristur er á ferðinni svo að þeir sem eru í fjarlægð komist nær þeim stað þar sem Kristur býr, ekki í miðdepli valdsins þar sem menn ræða fjálglega um þegnskap jarðarinnar, heldur á útjöðrum samfélagsins, þar sem hinir útskúfuðu þiggja sopa af hreinu vatni.
KFUM og KFUK-félög hafa verið í fararbroddi við að leiða fólk nær hvað öðru. Þau hafa gefið fólki frá ólíkum menningarheimum, með ólíka lífsreynslu og ólíkar áskoranir í farteskinu, undursamleg tækifæri til að kynnast og uppgötva nýjar lausnir. Hreyfingin hefur lagt sig í líma við að þjálfa ungt fólk í að vera ábyrgir samþegnar allrar jarðarinnar.
„Samþegnar hinna heilögu“ hvetja okkur til dáða.
Gerðu þitt besta til að vera góður samþegn jarðarinnar, og taktu vel eftir því í kringum þig hvernig Kristur endurskilgreinir merkingu þess hugtaks. Kristur er á ferðinni svo að við séum ekki lengur gestir og útlendingar heldur samþegnar hinna heilögu, bræður og systur í alheimsfjölskyldu Guðs, sem elskum, dönsum, deilum og hungrar.
Spurningar til íhugunar
Hvernig myndir þú skilgreina það að vera góður samþegn jarðarinnar? Hvaða fólk veitir gott fordæmi í því að vera samþegn jarðarinnar? Í hugleiðingunni að ofan staðhæfir höfundurinn að hluti af því að vera góður samþegn jarðarinnar felist að velja að lifa í fátækt. Ert þú sammála þessu? Hvernig myndu þeir, sem þú skilgreinir sem hina heilögu, hvetja þig til að gerast betri samþegn jarðarinnar?

Bæn
Faðmur sem er nógu breiður til að halda utan um allan heiminn,
safnaðu fólkinu þínu saman
svo að sá tími sé í nánd þegar við erum ekki lengur gestir eða útlendingar,
í nánd eins og flóttamaður sem leitar hælis,
í nánd eins og ungt fólk sem leitar að vinnu,
í nánd eins og eldri kona sem leitar að félagsskap,
í nánd eins og Jesús Kristur, hyrningarsteinn vonar okkar og trúar.
Amen.