Dagur 3
Vakning var kl:8 í morgun, en þá voru aðeins nokkrar fræknar stúlkur farnar á stjá. Eftir fánahyllingu var biblíulestur þar sem stúkurnar fræddust um bænina og útbjuggu sína eigin bænabók. Í hádegismat var kakósúpa sem rann ljúflega niðurog smurt brauð með. Eftir hádegi tóku stúlkurnar þátt í hinum ýmsu íþróttakeppnum þangað til leynigesturinn mætti á svæðið.
Leynigesturinn var töframaður sem sýndi stúlkunum listir sínar og bjó til hin ýmsustu blöðrudýr. Stúlkurnar fengu að sjálfsögðu hver sitt dýr til eignar, en þau eru því miður flest sprungin Drottni sínum þegar þessi orð eru rituð.
Upp rann kaffitími með kræsingum og að honum loknum tóku við tiltektir, pottaferðir, sturta, spariföt, og annað sem tilheyrir veisludögum. Eftirvæntingarfullar biðu stúlkurnar svo eftir veislukvöldverðinum, sem voru pizzur.
Að kvöldverði loknum var haldin hin skemmtilegasta kvöldvaka þar sem starfsmenn klæddu sig upp í búninga og gerðu sig að fíflum. Það þótti stúlkunum skemmtilegt.
Dagur að kveldi kominn og allar stúlkur komnar í ból.
Starfsstúlkurnar sitja á ganginum og syngja kvæði við gítarspil til að auðvelda stúlkunum ferðina inn í draumalandið.
Góða nótt foreldrar og sjáumst á morgun!
Lella forstöðukona