Snemma morguns heyrðist í kátum stelpum um allt hús og ekki þurfti að vekja nema í einu herbergi. Þær tóku hraustlega til matar síns eins og fyrri daginn, margar vildu hafragraut en aðrar morgunkorn. Það er svo gaman að hafa svona hressan hóp stúlkna sem einnig kunna að vera rólegar þegar á þarf að halda. Í Biblíulestri morgunsins var gott andrúmsloft, vel hlustað, mikið spurt og sungið. Eftir mexíkóskan hádegisverðinn fórum við í fjallgöngu og fóru margar nokkuð hátt upp í hlíðina.
Að loknum þrírétta kaffitímanum hélt íþróttakeppnin áfram í glampandi sól og blíðu. Að þessu sinni var keppt í þriggja staða hlaupi og hanaslag. Hljómar glannalega, en er sárasaklaust og skemmtilegt. Stúlkurnar héldu síðan áfram að leika úti og fóru í smærri hópum í heita pottinn. Á kvöldvökunni sýndu stúlkur úr Hlíðaveri leikrit og voru með leiki og var mikið hlegið.
Aðspurðar um hvað hefði verið skemmtilegast í dag, sögðu stúlkurnar fjallgönguna, íþróttakeppnina, kvöldvökuna eða bara allt sem gert var hefði verið skemmtilegast! Það gerist varla betra.
Með sólarkveðju úr Ölveri,
Ása Björk, forstöðukona.