Við áttum stórskemmtilegan mánudag með mikilli dagskrá. Þó var ekki vakið fyrr en kl. 11 þar sem við fórum seint að sofa í gærkvöldi. Nokkrar stúlkur fóru samt fyrr á fætur og fengu sér standandi morgunmat og læddust út, fóru að vaða í læknum eða annað álíka enda veðurblíðan dásamleg. Í hádegismat fengum við kjúklingaleggi, hrísgrjón og æðislegt salat sem stúlkurnar borðuðu mjög vel af. Svo var leikjatími fram til tvö en þá hófst hinn langþráði hermannaleikur. Í upphafi heyrðu stúlkurnar sögu sem vakti spennu og hópsamstöðu, hlupu svo út og áttu að forðast hermenn sem lágu í leyni og náðu þeim í herbúðir sínar. Vísbendingar voru á nokkrum stöðum sem veittu þeim upplýsingar um griðarstaði og voru margar sem stóðu sig mjög vel og erfitt var að hlaupa uppi. Eftir öll hlaupin fengum við svalandi drykki og kaffibrauð út á hlað enda sólin heit og margar sveittar. Eftir kaffið fóru því allar í sturtur, nokkrir hópar kepptu í brennó og aðrar í fjölbreyttum íþróttagreinum. Hoppukastaladýnan laðar bæði stúlkur og starfsfólk að sér enda skemmtileg hreyfing að hoppa og skoppa, fleygja sér á bak eða fara í flikk flakk. Í kvöldmat var svo pasta, hvítlauksbrauð og dásamleg pastasósu sem dömurnar hámuðu í sig enda við með dásamlega ráðskonu og eldhússtúlkur sem leggja alúð og kærleika í allan mat. Eftir kvöldmat var kvöldvaka með níu skemmtiatriðum stúlkunanna sem fannst þær sjálfar og hinar mjög fyndnar og skemmtilegar. Mikið var hlegið og klappað og söngurinn líka kraftmikill. Hugleiðing var í kjölfar kvöldvökunnar í setustofunni en svo voru stúlkurnar sendar inn á herbergi í náttföt og þaðan aftur niður í sal því komið var að kósíkvöldi með poppi og viðeigandi og horfðu þær á bíómynd að góðum smekk stúlknanna. Allar voru komnar í draumaheima rétt um miðnætti og sváfu vært og rótt alla nóttina.
Myndirnar dagsins eru
hér.
kveðja,
Auður Páls forstöðukona.