Sól í heiði en napur og hvöss norð austan átt. Svona var veðrið hér í Vatnaskógi í gær. En við létum það ekki á okkur fá og héldum áfram að hafa það skemmtilegt.
Þegar svona hvasst er í veðri er ekki hægt að lána bátana. Við gripum hinsvegar til þess ráðs að bjóða upp á ferðir með gúmmíbátunum okkar. Þetta vakti mikla lukku hjá mörgum enda er mjög skemmtilegt að skoppast um eftir vatninu á þessum bátum í svona veðri. Að sjálfsögðu er öryggið haft í fyrirrúmmi. Allir í vestum og aldrei of margir í bátunum í einu.
Veðrið í dag hinsvegar lofar góðu. Blanka logn og milt veður. Ef veðrið helst svona áfram þá er stefnt að því að bjóða upp á fjallgöngu upp á Kambinn. En Kamburinn gnæfir yfir okkur hérna í Vatnaskógi.
Nokkrar hetjur hlupu víðavangshlaup í gær. En þá er hlaupið í kringum Eyrarvatnið. Þetta eru um 4 km. og tekur strákana um 20-30 mínútur að hlaupa þetta. Einhverjir tóku þátt bara upp á gamanið og röltu þetta i rólegheitum. En það er líka allt í góðu lagi.
Annars yfir daginn var margt í boði að venju, fleiri íþróttir, víkingaleikir, gönguferð upp að Álfaborgum og margt fleira.
Ég verð að segja það að þessi hópur sem er hérna hjá okkur núna hefur staðið sig griðarlega vel. Lítið sem ekkert um árekstra á milli manna og menn fljotir að hlýða skipunum starfsfólks. Íslenska þjóðin þarf ekki að kvíða ef þetta er þverskurðurinn af karlmönnum framtiðarinnar. Úff…er ég kannski orðinn full hátíðlegur í þessum skrifum mínum?
Strákarnir voru fljótir að sofna eftir átök dagsins. Ró var komin á fyrir kl. 23:00.
Myndir frá því í gærkv, Árni Geir