96 drengir voru ekki lengi að koma sér út úr rútunum og hlaupa inn í matsal. Þeir sem verið hafa áður í Vatnaskógi kunna á skipulagið og eru búnir að ákveða hvar þeir vilja sitja í matsalnum. Skipulag flokksins miðast einmitt mikið til út frá uppröðun í matsalnum. Við skiptum hópnum upp í 7 hópa eða eins og við köllum þetta 7 borð. Hvert borð hefur sinn foringja sem fylgir þeim allan flokkinn. Ãmsar keppnir eru svo á milli borða í flokknum. T.d. hegðunarkeppni, fótboltamót, frjálsar íþróttir, bíblíspurningakeppni svo eitthvað sé nefnt.
Þegar búið var að kynna drengjunum helstu reglur, þeir búnir að koma sér fyrir í svefnsölunum og búnir að borða sig sadda af steiktum fiski í raspi, (Þó ekki þeir sem eru með fiskiofnæmi, betra að það komi fram) byrjaði dagskráin.
Það var gaman að sjá nokkra strákana rjúka til og græja veiðistangirnar. Svo hlupu þeir hreinlega niður að vatni til þess að geta byrjað að veiða. Og viti menn, fyrsti fiskurinn kominn á land á innan við klukkustund….ja ekki var hann nú stór, en fiskur er jú fiskur er það ekki.
Bátarnir eru mikið aðdráttarafl hérna í Vatnaskógi. Að sjálfsögðu eru strangar reglur sem fara þarf eftir. Enginn fer út á bát nema einhver sé á bátavakt og allir þurfa að vera í björgunarvestum. Drengirnir fengu góða kennslu frá bátaforingjunum um hvernig þeir eiga að festa á sig vestin. Það mætti halda að þeir hafi unnið sem flugþjónar hjá einhverju flugfélaginu.
Fótboltamótið eða Svínadalsdeildin fór vel af stað. Greinilegt að það eru margir af þessum strákum sem æfa fótbolta og verður spennandi að sjá hvernig þetta mót spilast. Einnig var boðið upp á 60 metra hlaup, kringlukast, hoppukastala, stangartennis ofl.
Í íþróttahúsinu byrjaði keppni í þythokkí. Þar inni er einnig hægt að spila fótboltaspil. spila borðtennis, dunda sér við kúluspil eða hreinlega þreyta skák.
Dagurinn var fljótur að líða. Skyndilega var komið að kvöldvökunni. Að venju var vel tekið undir sönginn, drengirnir sungu hátt og snjallt….hmmmm…eigum við ekki að segja hátt allavegana.
Leikhópur foringjanna átti enn einn leiksigurinn þegar þeir stigu á stokk.
Eins og gefur að skilja enduðum við á því að segja þeim aðeins frá Guðs orði enda eru þetta jú sumarbúðir KFUM & KFUK. Strákarnir hlustuðu á með athygli enda fengu þeir að heyra um þann merka mann Sr. Friðrik Friðriksson stofnanda KFUM & KFUK á Íslandi. Þetta var gríðarlega merkur maður sem skildi mikið eftir sig.
Eftir kvöldvökuna fengu þeir svo ávexti svo þeir færu nú ekki svangir í rúmmið.
Ró var komin á rúmlega ellefu sem þykir nú bara nokkuð gott svona á fyrsta kvöldi.
Ég kem til með að setja inn myndir frá því í gær á eftir og svo reglulega allan flokkinn.
kv, Árni Geir Jónsson
Forstöðumaður,