Í Gauraflokki þetta árið eru 50 drengir. Stemmningin hefur verið mjög góð fyrsta sólahringinn og veðrið hefur leikið við okkur. Við komuna í skóginn í gær var drengjunum skipt í litla hópa og farið með þá í kynnisferðin um staðinn. Strax varð ljóst að bátarnir hafa einstakt aðdráttarafl í huga drengjanna líkt og oft áður.
Í dag miðvikudag er búið að vera mikið í gangi. Farið var í fótbolta og badminton, ratleik og heita potta. Listasmiðjan dældi út listaverkunum, leiklistarhópur hóf æfingar og bátarnir slógu í gegn. Sérstaklega eru tveir hjólabátar mjög vinsælir. Fyrsti fiskur sumarsins var dregin á land. Veiddur á spún og vóg líklega hátt í hálft pund.
Á kvöldvökunni var sýnd þriggja mínútna stuttmynd úr starfi dagsins. Það merkilega við þá stuttmynd var að einn af drengjunum sá algjörlega um alla kvikmyndatöku, klippingar og hljóðsetningu. Var norska eurovisionlagið spilað undir þessari Gauraflokksstuttmynd.
Stemmningin í drengja hópnum er góð. Drengirnir virðast una sér vel saman og ná að leysa vel úr öllum ágreiningi. Sumir hugsa heim og hafa haft orð á því hvort hægt sé að hringja og heyra í foreldrunum sínum. Höfum við þá reynt að leiða hugann að spennandi viðfangsefnum staðarins og gengur það vel. Þeir sem munu reynast allra forvitnastir um hagi foreldra sinna munu þó mögulega hringja heim er líður á flokkinn.
Allir voru komnir í draumalandið um 22:30. Á morgun vakna allir sem Skógarmenn eftir að hafa gist í Vatnaskógi í tvær nætur í röð. Veðurspáin er góð og standa því vonir til þess að útivera og almennur strákagangur verði við völd allan daginn.
Vert er að minna á símatímann milli klukkan 11-12 í síma 433 8959. Ykkur er velkomið að hringja en munið líka að engar fréttir eru góðar fréttir. Við hikum ekki við að hringja í ykkur ef eitthvað er í ólagi.
Bóas Valdórsson forstöðumaður