Föstudaginn 23. janúar var breytt um útlit á heimasíðu KFUM og KFUK var það gert á sama tíma og skipt var um vefsíðukerfi.

Útlit síðunnar

Útlit síðunnar hefur breyst töluvert til hins betra. Veftréð hefur verið tekið í gegn og hefur verið reynt að einfalda það eftir fremsta megni. Efst á síðunni eru helstu tenglarnir, nokkurskonar áherslur á síðunni. Vinstra megin eru valmöguleikar sem breytast eftir því hvað valið er í toppnum. Eitt dæmi um breytingu er að ekki er lengur einn tengill fyrir unglingastarf og annar fyrir krakkastarf heldur er núna einn tengill sem heitir „Æskulýðstarf“ og þar er að finna alla þá staði sem KFUM og KFUK starfar á og dagskrá fyrir hverja deild fyrir sig.

Fréttir

Allar fréttir fyrir 1. janúar 2009 eru óaðgengilegar. Ástæðan fyrir því er að þetta er nýtt vefkerfi frá grunni og til að flytja fréttirnar yfir þyrfti að handsetja inn hverja einustu frétt síðan mars 2004. Eins myndi þurfa að vista hverja einustu mynd með fréttunum og setja þær inn í nýja kerfið.
Síðar gæti verið að gamlar fréttir komi inn í kerfið, verið er að vinna að leið til að flytja þær allar yfir í þetta nýja kerfi.

RSS

Fyrir þá sem hafa verið að nota svokallaðan RSS lesara, eða áskrift af fréttum síðurnar þá þurfa þeir að gera breytingar á þeim tengli, nýr tengilinn verður http://www.kfum.is/?type=100

Ástæða

Ástæðan fyrir að farið var í þessar breytingar er sú að vefkerfið sem hélt utan um gömlu síðuna var orðið gamalt og margir annmarkar á því. Gamla vefsíðukerfið hefur þjónað tilgangi sínum mjög vel. Hinsvegar hafa kröfur á síðuna breyst og við viljum geta gert meira með heimasíðuna okkar en hægt var í gamla kerfinu. Sakarías Ingólfsson bjó til gamla vefkerfið frá grunni fyrir KFUM og KFUK og var það því sniðið að okkar þörfum. Hann er fluttur til Noregs og er kominn með fjölskyldu þar og hefur því haft minni tíma til að uppfæra kerfið.

Nýja kerfið

Nýja kerfið er ókeypis kerfi sem upphaflega var þróað af Dananum Kasper Skorhoj og er notað af yfir 100.000 vefsíðum að talið er. Kerfið er í stanslausri þróun og alltaf verið að koma með viðbætur og endurbætur á því. Nýja kerfið býður til dæmis upp á að við getum verið með viðburði dagsins á forsíðu sem sækir dagskrár frá öllum deildum og fullorðinsstarfi og birtir þá hvað er að gerast á hverjum degi. Þegar reynsla er kominn á kerfið verður bætt við leit og möguleika til dæmis til að verða áskrifandi af netpósti frá félaginu. Möguleiki er fyrir hendi að vera með vefverslun. Í raun eru möguleikarnir endalausir og munum við bæta við einhverjum þeirra þegar tíminn líður og óskir um þá koma fram.
Eitt af því sem við erum stolt af er að fyrir hvern dag er sótt biblíuorð dagsins og birtist það á forsíðu.
Til gamans má geta þess að eftir að við ákváðum að nota þetta kerfi og byrjuðum að þróa síðuna þá kom í ljós að KFUM og KFUK í Danmörku er að nota þetta sama kerfi.
Við vonum að þessi breyting eigi eftir að reynast vel.