Okkur langar til að deila frétt sem birtist á Vísi þann 11. febrúar 2019. 112 dagurinn er haldinn 11. febrúar og þá heiðraði Rauði krossinn í Reykjavík starfsfólk á Vinagarði fyrir skyndihjálparafrek.


Björguðu lífi samstarfskonu sinnar: „Ég væri ekki hér ef ekki væri fyrir þær“

Kona sem fór í hjartastopp á líf sitt að launa þremur samstarfskonum sínum sem björguðu lífi hennar. Tvísýnt var í nokkra daga hvort hún myndi lifa af en Rauði krossinn heiðraði samstarfskonur hennar í dag fyrir skyndihjálparafrek. 

Sesselja Kristinsdóttir er 28 ára starfsmaður leikskólans Vinagarðs. Hún hefur alltaf verið hraust svo það var án nokkurs fyrirvara sem hún fór skyndilega í hjartastopp í apríl í fyrra. „Ég bara fer í hjartastopp hérna á kaffistofunni,“ segir Sesselja í samtali við fréttastofu.

Samstarfskonur hennar þær Katarzyna Jakubowska, Ragnhildur Gunnarsdóttir og Hulda Björg Jónasdóttir, brugðust hárrétt við en án þess að hika byrjuðu þær hjartahnoð á meðan ein þeirra hringdi eftir aðstoð. Eftir nokkra tvísýna daga á gjörgæslu kom Sesselja til baka og þykir ljóst að snarræði samstarfskvenna hennar var það sem réði úrslitum. Hún náði það fljótt aftur heilsu að hún gat tekið þátt í Reykjavíkurmaraþoninu í ágúst.

„Ég væri ekki hér ef ekki væri fyrir þær,“ segir Sesselja. 112 dagurinn er í dag, 11. febrúar, og að því tilefni veitti Rauði krossinn í Reykjavík samstarfskonum Sesselju, viðurkenningu fyrir afrekið. Þær hvetja alla til að sækja skyndihjálparnámskeið. „Það er nauðsynlegt að fara á svona námskeið, ég myndi segja það og það skipti sköpum hvernig við brugðumst við, að hafa lært þetta,“ segir Hulda Gunnarsdóttir, starfsmaður leikskólans Vinagarðs.

http://www.visir.is/g/2019190219823?fbclid=IwAR1Pd3k1vORYVW8uYiw82su1qCq7fnFlGqCXHzaEMqVnQKWYyqq2UKvEXV4