Níu Íslendingar fóru sem sjálfboðaliðar á vegum Jól í skókassa til Kirovograd, í austurhluta Úkraínu, dagana 31. desember 2017 til 7. janúar 2018. Karítas Hrundar- Pálsdóttir rekur ferðasöguna fyrir hönd hópsins.
- desember
Rétt fyrir miðnætti á Gamlárskvöld sátum við níu manna hópur frá Íslandi ásamt úkraínska sjálfboðaliðanum Vladik, sem tók á móti okkur á flugvellinum í Kænugarði, á veitingastað og fórum hringinn og sögðum hvað við værum þakklát fyrir þá stundina. „Að vera með ykkur,“ sagði sá fyrsti. „Að flugvélin komst heilu og höldnu til Úkraínu þrátt fyrir mikinn hristing,“ sagði annar. „Að allar töskurnar skiluðu sér alla leið,“ sagði enn annar. Við höfðum millilent í Stokkhólmi og þurft að innrita töskurnar aftur þar. „Að allir hafi rúm að sofa í,“ bætti einhver við en við höfðum lent í veseni með bókunina okkar þegar við komum til Kænugarðs. „Að upplifa eitthvað nýtt á gamlárskvöld,“ sagði sá síðasti og það gerðum við heldur betur.
Eftir matinn gegnum við fram hjá torginu þar sem skotárásin var 2014 á leið okkar á annað torg þar sem átti að vera flugeldasýning. Þar var mikil gleði: stórt jólatré, lifandi tónlist, hringekja og sölubásar eins og á 17. júní í Reykjavík. Á götunum var konfetti-áramótaskraut, glimmer og litlir platpeningar. Við þurftum að mynda keðju eins og í „allir dansa kónga“ til að geta haldið hópinn í mannþrönginni.
- janúar
Bílferðin til Kirovograd var ævintýraleg. Sætin hölluðu öll örlítið aftur. Það voru engin öryggisbelti og við þreyttumst fljótt á setunni því bíllinn hossaðist svo mikið. Bílstjóranum tókst ekki að forðast allar holurnar í veginum þrátt fyrir að sveigja markvisst fram hjá þeim stærstu og færa sig á milli akreina eftir hentugleika. En bílstjórinn var með margskonar verndargripi hangandi við baksýnisspegilinn: talnabönd, myndir af Jesú og Maríu mey, tening, fánaskjöld frá einhverju félagi og úkraínska fánann. Við komumst heil á leiðarenda, fengum okkur að borða og fórum í smá göngutúr um miðbæ Kirovograd. Það var lítið um að vera, þar sem um hátíðisdag var að ræða, og innfæddir voru að jafna sig eftir gleði gærdagsins.
- janúar
Eftir tvo ferðadaga var loksins komið að útdeilingu. Fyrsti staðurinn sem við heimsóttum var munaðarleysingjaheimilið Nadia. Flest barnanna þar hafa misst foreldra sína og lent á götunni en einnig eru þar börn sem hafa þurft að flýja erfiðar heimilisaðstæður. Um er að ræða skammtímaúrræði fyrir börnin. Þeim er að jafnaði fundinn annar staður á um það bil þremur mánuðum. Þegar börnin koma þangað í fyrsta sinn þurfa þau að fara í gegnum einnar viku einangrun. Gætt er að heilbrigði þeirra svo þau smiti ekki hin börnin. Þrátt fyrir að húsakynnin séu gamaldags og lyktin ekki alltaf eins og best væri á kosið (hlandlykt virtist föst í klósettlögnunum) kom mér á óvart hvað heimilið var stórt, bjart og fallegt. Dagsbirtan skein inn um stóra gluggana og veggirnir voru málaðir í ljósum litum. Þeir voru skreyttir með myndum sem börnin höfðu teiknað.
Í samkomusalnum var jólatré sem bar þess merki að börnin hefðu fengið að skreyta það. Þangað inn komu börnin hlæjandi og fengu sér forvitin sæti á bekki fyrir framan okkur. Þau fengu smá kynningu á okkur og komu svo nokkur til okkar og fluttu fyrir okkur jólakvæði. Fyrst komu 3-6 ára stelpur í röð til okkar og við réttum þeim gjafir. Þá komu 3-6 ára strákar og svo koll af kolli, 7-10 ára krakkar og einn strákur á aldrinum 11-14 ára. Börnin biðu prúð eftir því að röðin kæmi að þeim að fá pakka. Þegar allir höfðu fengið kassa í hendurnar var komið að því að opna gjafirnar. Út brutust mikil fagnaðarlæti. Margir skríktu af gleði. Á fremsta bekk þar sem minnstu börnin sátu þétt upp við hvert annað var hamagangurinn svo mikill við að opna kassana að lokin flugu af og fyrir andlit sessunautanna. Sérstaklega krúttlegur var einn strákur sem hvarf alveg á bak við lokin. Hann lét það ekkert á sig fá, hélt bara áfram að skoða innihald kassans síns í þrengslunum. Börnin fóru strax að máta húfur, vettlinga og boli, stinga upp í sig sælgæti og veifa dótinu sínu svo við sæjum. Þriggja ára strákur fékk ekki nóg af því að setja upp og taka niður sólgleraugun sem leyndust í pakkanum hans. Með látbragði talaði ég við tólf ára stelpu og útskýrði fyrir henni muninn á mentosi og mentos tyggjói. Þegar krakkarnir voru beðnir um að lyfta upp uppáhalds hlutunum sínum lyfti sú stelpa upp tyggjóinu.
Það var gaman að fá leiðsögn um húsið og sjá sturtu og rúm sem keypt hafa verið fyrir peninga frá Jól í skókassa. Verkefnið hefur einnig styrkt Nadia með því að borga fyrir viðgerð á bílnum þeirra. Við nutum góðs af því þar sem bílstjóri þeirra keyrði okkur um á þeim bíl þá daga sem við sinntum útdeilingu. Þegar við hittum börnin aftur uppi á herbergjunum þeirra gátum við aðstoðað þau við að opna umbúðir og læra til dæmis á Pez-karlanna. Þriggja ára strákur lék sér alsæll með uglubrúðu og annar var svo sætur þegar hann uppgötvaði spegil í pakkanum sínum. Tólf ára stelpa sýndi okkur lystir sínar með þyrilsnældu sem hún hafði fengið. Henni tókst að láta hana snúast á nefinu á sér.
Næsti staður var dagvistin Cheromoske sem er fyrir börn með líkamlega- eða andlega fatlanir og geta því ekki verið í skóla. Áður en við gáfum þeim gjafirnar sínar stóðum við í hring og dönsuðum „jóladans“ með þeim. Tvö barnanna gátu ekki staðið sjálf og fengu því stuðning sjúkraþjálfara á meðan á þessu stóð. Þarna var ýmislegt til að örva börnin, til dæmis íþróttasalur, nuddherbergi, kanínur og páfagaukur og plata með hlutum eins og hurðarhúni, innstungu, dekki og króki sem börnin máttu fikta í. Okkur gekk misvel að ná sambandi við börnin. Sum settu á sig húfurnar sem þau fengu að gjöf. Önnur störðu út í loftið, boruðu í nefnið eða gegnu á milli okkar í leit að snertingu. Skólastýran gaf okkur jólaskraut sem börnin höfðu búið til með hjálp leiðbeinenda sinna: jólastjörnu úr garni, snjókarl sem málaður var á hvíta plastflösku og jólakúlu með glitri og mandarínu-stjörnu inni í. Þetta voru fallegar gjafir.
Eftir að hafa borðað ljúffenga borcht-súpu fórum við í skólann PMPK sem sinnir börnum með greiningu og skerðingu. Móðir Vladik vinnur þar og kennir heyrnarskertum börnum táknmál. Þar vorum við Hreinn plötuð í að leika Did Moroz (e. Father Frost) úkraínska jólasveininn, sem klæðist rauðum klæðum eins og bandaríski jólasveininn en er með síðara skegg, grennri og með töfrastaf, og barnabarnið hans, stelpu sem klæðist bláu og aðstoðar jólasveininn af því að hann er svo gamall. Þar var mikið jólaballa en allt öðruvísi en við erum vön á Íslandi. Dansarnir og hermileikirnir minntu á náttfatapartý í sumarbúðum KFUM og KFUK. Við stóðum líka í hring og lékum með efni sem við sveifluðum þannig að boltar fengu að skoppa á því. Efnið var svo strengt þannig að börnin gátu skriði undir það og fundist þau vera í tjaldi. Börnin réðu sér ekki fyrir kæti og skríktu mörg hver af gleði. Það þurfti ekki mikið til að gleðja þau. Jólasveinninn og barnabarnið hans gáfu síðan öllum börnunum pakka frá Jól í skókassa. Af því að foreldrar og eldri systkini voru með börnunum gafst okkur ekki eins mikið tækifæri og áður til að skoða gjafirnar með þeim.
Á bókasafninu við aðalgötuna í Kirovograd hittum við langveik börn, systkini þeirra og foreldra sem sýna hvert öðru samstöðu með þátttöku í félaginu Mother heart. Þrjú barnanna voru lömuð og því í hjólastóla-kerru. Nokkur börn voru í sérsmíðuðum skóm en Jól í skókassa hefur í gegnum tíðina styrkt kaup á slíkum skóm. Þriggja ára systir hreyfihamlaðrar stelpu var sérstaklega sæt. Hún var klædd í prinsessukjól og með kórónu. Mæðurnar í stjórn félagsins fluttu okkur falleg þakkarorð um það dýrmæta vinasamband sem hefur myndast á milli Úkraínu og Íslands. Þær gáfu okkur fallegar kökur sem voru í laginu eins og hjörtu. Ein konan í hópnum er atvinnukökugerðarmaður og hafði skreytt kökurnar með merki Mother heart öðru megin og íslenska fánanum hinum megin. Það var líka fallegt að sjá að langveiku börnin og mæður þeirra höfðu milli ára lagt sig fram við að læra meiri ensku til að auðvelda samskipti við okkur.
- janúar
Í þorpinu Pandaívka fórum við á munaðarleysingjaheimili fyrir veik börn. Um er að ræða langtímaúrræði. Sum barnanna eiga reyndar foreldra sem ekki geta sinnt þeim vegna fátæktar, drykkju, neyslu, veikinda eða slíks og fá af og til að fara heim, til dæmis í fríum. Um leið og við stigum inn í stofuna til barnanna hljóp þvengmjór strákur upp í fangið á okkur. Hann þurfti svo á faðmlagi að halda, fór úr einu fangi í annað. Við afhentum börnunum, sem voru á aldrinum 3-6 ára, fyrir utan einn strák sem var 1 árs, gjafirnar. Síðan settumst við með þeim á gólfið og fylgdumst með þeim opna pakkana. Ein stelpan fór strax að lita og vildi fá okkur til að lita með sér. Önnur stelpa gekk um og sýndi öllum börnum, fóstrum og gestum sleikjó-blóm sem hún hafði fengið og opnaðist ef hún ýtti á takka. Tvær stelpur virtust þurfa gleraugu. Önnur grandskoðaði mynd af íslensku mæðgunum sem höfðu sent henni pakkann alveg við nefið á sér. Einn strákur var sérlega hrifinn af namminu og límdi hlauporm á vegginn á stigaganginum þegar við kvöddum. Það var erfitt að kveðja þessi börn því þau tóku okkur opnum örmum, settust í fangið á okkur og báðu okkur um að leika við sig.
Við keyrðu til bæjarins Alexandria sem er, eins og allir staðirnir sem við heimsóttum, í Kirovograd-héraði. Þar fórum við á fund biskupsins í Alexandria umdæmi en það eru um 35 orþódox biskupar í allri Úkraínu. Hann bauð okkur upp á te, kex og súkkulaði. Við gegnum hringinn og sögðum frá lífi okkar á Íslandi og biskupinn gaf okkur síðan tækifæri til að fræðast um úkraínsku orþódox kirkjuna.
Þaðan fórum við í nunnuklaustrið Vernd heilagrar Guðsmóður í Alexandriu. Nafnið vísar í að klaustrið er kvennaathvarf þangað sem konur gefa leitað sér hælis. Þar búa fjórar nunnur sem buðu okkur upp á flottan úkraínskan hádegisverð og eftir hann sýndi Abbadísin okkur kvenmönnunum hluta af húsakynnunum. Í sal klaustursins þar sem reglulega er haldinn sunnudagaskóli fyrir börnin í nágrenninu var okkur boðið á jólatónleika. Þar sungu og fóru með ljóð börn á ýmsum aldri, sum heilbrigð en önnur fötluð. Sérstaklega sæt var fimm ára stelpa sem huldi hárið sitt með slæðu eins og amma sín. Það er hefð fyrir því að konur séu með húfur eða slæðu í kirkjum en þar sem þetta var ekki kirkja voru þær nánast einar um að vera með slæður á jólaskemmtuninni. Við vorum heiðursgestir samkomunnar og gáfum börnunum gjafir að dagskránni lokinni. Undir útdeilinguna fór lítil stelpa að gráta því hún hélt hún myndi ekki fá neinn pakka. Það var sárt að sjá hana gráta en hún var fljót að kætast þegar henni var afhentur pakki.
- janúar
Í þorpinu Vladímírovka fórum við í venjulegan skóla fyrir börn á aldrinum 6 til 17 ára. Þar sem börnin voru í jólafrí hittum við 30 fulltrúa þeirra sem flest voru 7-10 ára. Þau tóku á móti okkur með því að veifa litlum íslenskum fánum og deildu með okkur fróðleik sem þau höfðu lært um Ísland. Eitt barnanna söng fyrir okkur jólalag. Krakkar í Kirovograd virðast fá mikla æfingu í að koma fram en við vorum oft í ferðinni glödd með uppákomu og flutningi af einhverju tagi. Við sungum Krummi svaf í klettagjá fyrir þennan hóp. Börnin opnuðu kassana sína og við fengum að gægjast í þá hjá þeim. Ein stelpan var himinlifandi með gjöfina og tjáði ánægju sína með því að endurtaka thank you aftur og aftur.
Þaðan fórum við í annan venjulegan skóla í þorpinu Pedrovo. Við hittum 30 fulltrúa í íþróttasalnum þar sem komið hafði verið fyrir skreyttu jólatré. Rimlarnir á veggjunum voru litríkir og viðargólfið málað í rauðum lit. Þarna eins og á fleiri stöðum sem við heimsóttum voru börnin tilbúin að gefa með sér af því sem þau höfðu fengið. Þau fengu þarna þessa einu jólagjöf frá Jól í skókassa, sem hjá sumum er eina jólagjöfin sem þau fá það árið, en samt sem áður voru þau reiðubúin að gefa með sér af namminu sínu.
Eftir góðan hádegisverð í boði skólans í Pedrovo fóru stjórnarmeðlimir Jól í skókassa með föður Yevgeny og Vladik að skoða geymsluna sem gjafirnar eru geymdir í eftir tollafgreiðslu. Hinir Íslendingarnir fóru ásamt úkraínsku stúlkunum Masha, Angelina og Valeria með lest yfir í Kirovograd-bæ og tóku þar strætó til að kíkja í minjagripaverslun áður en næsta afhenging færi fram.
Í Kirovograd fórum við í skóla sem var á tímum Sovétríkjanna fyrir munaðarlaus börn. Nú er þar töluvert af börnum sem búa hjá fósturforeldrum auk annarra barna en við skólann er meðal annars einskonar herþjálfunarbraut. Þar hittum við hóp ungmenna sem æfa þjóðdans í leikfimissal skólans og við fengum líka þessa frábæru einkasýningu. Krakkarnir dönsuðu og sungu fyrir okkur eins og fagmenn. Þau voru með mikla útgeislun. Þjóðdansararnir voru í fallegum þjóðbúningum: hvítum skyrtum með rauðu útsaumuðu mynstri og pilsum við. Íslensku stelpurnar höfðu keypt sér svipaðar þjóðlegar skyrtur í minjagripaversluninni og fóru í þær eftir sýninguna. Tekin var mynd af öllum hópnum.
- janúar
Við fórum í menningarsetrið í bænum Znamenka og hittum þar börn og foreldra þeirra. Félagsþjónusta ríkisins veitir þessum barnmörgu fjölskyldum aðstoð. Við gáfum ekki nema um 30 kassa í þessari heimsókn en til félagsþjónustunnar munu fara um 300 kassar í allt. Við deildum út gjöfunum inni í sal með stóru sviði. Þar var 4 ára gamall sætur strákur sem sendi okkur fingurkoss aftur og aftur.
Í Znamenka fórum við einnig á skrifstofu félagsþjónustu héraðsins og gáfum 48 börnum gjafir inni á lítilli skrifstofu þar. Alls munu 700 kassar fara í dreifingu á þeirra vegum. Gjafirnar berast til barna sem búa hjá fósturforeldrum en í Znamenka hefur verið brugðið á það ráð að borga meðlag með munaðarlausum börnum sem búa hjá fósturfjölskyldum og fækka þannig munaðarleysingjaheimilum. Aðeins hjón sem eiga fyrir barn eða börn sem þau sinna vel geta sótt um að gerast fósturforeldrar af þessu tagi. Dæmi eru um að allt að 15 börn búi þá á heimili hjónanna en algengara er að þau séu á bilinu 5-10. Þá getur foreldrahlutverkið orðið að meginatvinnu fósturforeldranna. Mér þótti fallegt að sjá brosmildar tvíburasystur úr stórum fóstursystkinahópi hlaupa og faðma bílstjórann okkar sem vinnur fyrir Nadia munaðarleysingjaheimilið. Þær höfðu verið á Nadia og kynntust bílstjóranum þá.
Við fórum með gjafir í hús Hjálpræðishersins í Kirovograd. Hjálpræðisherinn í Úkraínu vinnur að því að hjálpa fátækum og veikum einstaklingum auk þess að vera með æskulýðsstarf og aðrar trúarlegar samkomur. Eins hefur hann sinnt fjölskyldum sem hafa þurft að flýja stríðið við landamæri Rússlands.
Á kaffihúsinu Zefir í Kirovograd hittum við úkraínsk ungmenni. Sjálfboðaliðahópurinn sem fór til Úkraínu þetta árið var styrktur af Evrópu unga fólksins og var viðburðurinn því liður í að við fengjum að kynnast fleiri ungmennum frá Úkraínu. Yfir 40 manns mættu og fræddust um Jól í skókassa verkefnið og ungmennaskiptin en 7 úkraínsk ungmenni komu til Íslands í nóvember. Við kynntum þeim einnig fyrir íslenskri menningu með því að sýna þeim myndbönd um Ísland og syngja fyrir þau nokkur vel valin íslensk lög. Síðan spjölluðum við saman yfir pönnukökum og tei.
- janúar
Þá var komið að úkraínskum aðfangadegi. Fyrri hluta dagsins heimsóttum við kirkju og fórum á safn um sögu og náttúru Kirovograd. Um eftirmiðdaginn fórum við í kirkju föður Yevgeny sem er í útjaðri Znamenka. Að lokinni athöfninni þar gáfum við börnunum í söfnuðinum gjöf frá Jól í skókassa. Þá var okkur boðið í safnaðarheimilið þar sem nokkur börn tróðu upp með söng og boðið var upp á kræsingar. Eftir það var okkur boðið í prestsbústaðinn en þar fór fram kveðjustund og við gáfum úkraínsku vinum okkar smá kveðjugjafir með þökk fyrir hlýjar móttökur.
- janúar
Á jóladag tók við mikill ferðadagur. Við lögðum af stað klukkan 6 um morgun á úkraínskum tíma. Vegalengdina frá Kirovograd til Kænugarðs keyrðum við. Síðan flugum við til Stokkhólms og biðum þar í 9 klukkustundir (vegna seinkunar) og flugum að lokum heim til Íslands. Þegar ég lagðist á koddann heima hjá mér var klukkan 4 um nótt á íslenskum tíma en 6 á úkraínskum tíma. Ferðalagið tók því nákvæmlega 24 klukkustundir. Ég fór sæl að sofa, þakklát fyrir að hafa fengið tækifæri til að fara til Úkraínu. Ég er þakklát fyrir allt það góða fólk sem ég kynntist í Kirovograd og kemur að verkefni Jól í skókassa með einum eða öðrum hætti. Þetta samvinnuverkefni er ómetanlegt, dýrmætt.