MÁNUDAGURINN 2. JANÚAR 2017
Þá var loksins komið að þessu, við vorum á leiðinni til Úkraínu. Þvílík forréttindi að fá að fara fyrir hönd verkefnisins, Jól í skókassa, og afhenda börnum í Úkraínu jólagjafir frá Íslendingum.
Það var átta manna hópur sem lagði af stað eldsnemma að morgni mánudagsins 2. janúar 2017 út á Keflavíkurflugvöll en fyrir hendi var um 18 klukkustunda ferðalag til Kirovograd í Úkraínu. Við fórum í loftið frá Íslandi í rigningu og myrkri og flugum til Kænugarðs, höfuðborgar Úkraínu, með stuttu stoppi í Helsinki. Á flugvellinum í Kænugarði tók á móti okkur bílstjóri sem átti að flytja okkur til Kirovograd. Við komum okkur fyrir í bílnum en þegar spurt var um bílbelti gerði bílstjórinn okkur það ljóst, með leikrænum tilþrifum þar sem að við töluðum ekki sama tungumál, að bílbelti væri slæm og að þau myndu að öllum líkindum kyrkja okkur og voru þau því ekki í boði. Þannig var nú það. Áætlað var að bílferðin frá Kænugarði til Kirovograd myndi taka um fimm klukkustundir. Bílstjórinn tók hins vegar fram úr öllum þeim bílum sem urðu á vegi okkar og við vorum komin á hótelið í Kirovograd rétt eftir miðnætti, fjórum klukkustundum eftir að við lögðum af stað frá flugvellinum, með ágætis stoppi á bensínstöð. Faðir Ievgenii tók á móti okkur á hótelinu með opnum örmum og bauð okkur velkomin og sá til þess að allt gengi vel fyrir sig og að allir kæmust í sitt herbergi. Það var gott að leggjast á koddann eftir langt ferðalag en auðvitað voru allir spenntir fyrir komandi dögum. – Lestu áfram á http://www.kfum.is/skokassar/