Í dag var veisludagur hjá þessum frábæra flokk sem hefur dvalið hjá okkur þessa vikuna.
Stelpurnar fengu allar að sofa til klukkan tíu í morgun og svo var veisludagsmorgunmatur klukkan hálf ellefu. Þá var boðið uppá Kókópöffs ásamt hefðbundnum morgunmat. (Cornflakes, Cheerios, Súrmjólk) Að sjálfsögðu voru þær allar mjög ánægðar með morgunmatinn 😉
eftir morgunmat var haldið í úrslitakeppnirnar í Brennó og íþróttakeppnir voru haldnar fyrir þær sem höfðu áhuga á að taka þátt.
Hádegismaturinn var á réttum tíma, enda ekki hægt að seinka skipulagi dagsins mjög mikið þó þær hafi sofið lengur. Þær fengu sveppasúpu og brauð.
Eftir hádegi var svo stórskemmtilegur Amazing Race leikur, en þá keppa herbergin saman að því að vinna sér inn sem flest stig með því að leysa ýmsar þrautir. Þessi leikur féll vel í kramið hjá þeim og allir skemmtu sér vel.
Í kaffitímann var að sjálfsögðu kaka og svo var boðið uppá búðing með henni. Eftir kaffi fóru þær svo að gera sig tilbúnar fyrir veislukvöldið, en jafnframt var vinagangurinn opnaður. Vinagangur er það þegar þær bjóða uppá „þjónustu“ í sínum herbergjum fyrir hinar stelpurnar. Á örskotsstundu risu því upp nokkrar hárgreiðslustofur, snyrtistofur, nuddstofur, eitt gufulaust gufubað og ýmislegt annað sniðugt. Svo gátu þær gengið á milli og látið greiða sér eða lakka á sér neglurnar.
Klukkan sex hringdi bjallan svo og allir fóru upp að fána. Hátíðardagskráin byrjar á því að fáninn er tekin niður, svo eru mjúkir dýrir dúkar vefaðir alla leið niður að skála og þar taka svo við herbergjamyndatökur þar sem hvert herbergi kemur í myndatöku ásamt sinni (eða sínum) bænakonum. Eftir þetta hófst svo veislukvöldverðurinn. Í þetta skiptið var boðið uppá Pizzu og djús.
Eftir kvöldmatinn tók við veislukvöldvaka þar sem hinir frábæru foringjar bregða sér í alls kyns hlutverk og fara á kostum með stórkostlegum leiktilþrifum. Það var engin svikin af þessari kvöldskemmtun! Við gáfum þeim svo ís í kvöldkaffið og hlustuðum á hugleiðingu um það að treysta Guði og trúa á hann.
Í dag er svo heimfarardagur hjá hressum flokki stúlkna. Það er smá dagskrá í gangi þar til rútan fer, en þar má nefna aðal brennóleik vikunnar þar sem foringjarnir keppa við brennómeistarana, grillaðar pylsur, stund í kirkjunni og svo súkkulaðibitakökur í kaffinu. ….og þar með er þessum flokk nánast lokið. Við starfsfólkið þökkum kærlega fyrir okkur þessa vikuna. Þetta er búin að vera frábær flokkur, allt hefur gengið mjög vel og vonandi hafa þær allar skemmt sér jafn vel og við. Myndir frá veisludeginum koma inn á netið fljótlega. Takk fyrir samveruna J
Rúturnar munum koma að húsi KFUM og KFUK við Holtaveg klukkan fjögur í dag skv. áætlun.
Með Hlíðarkveðju, Jóhanna K. Steinsdóttir.