Gleðileg jól og til hamingju með vígsluafmælið kæra kirkja
Í dag eru allar stelpurnar búnar að sofa í 3 nætur í dvalarflokki í Vindáshlíð og eru því formlega orðnar Hlíðarmeyjar og því merkisdagur fyrir þær.
Í dag ákváðu foringjarnir líka að halda jól fyrir stelpurnar. Þetta byrjaði á því að þær voru vaktar mjög seint og beðnar að mæta strax í setustofuna okkar á náttfötunum. Þar söfnuðust þær saman og þegar allar voru komnar þá var opnað inní matsalinn með jólakveðjum, jólalögum og fullskreyttu jólatré á miðju gólfinu. Stelpurnar vissu nú eiginlega ekki alveg hvað þær áttu að gera eða hvernig þær áttu að bregðast við en foringjarnir söfnuðust kringum jólatréið og svo var haldið náttfatajólaball sem allir tóku þátt í. Að sjálfsögðu mætti jólasveinninn á staðin með piparkökur handa öllum. Eftir jólaballið var svo róleg stund fram að hádegismat þar sem þær fengu nægan tíma til að klæða sig. Í matinn var boðið uppá dýrindis pasta og tómatsósu sem þær borðuðu mjög vel af.
Eftir hádegið ákváðum við að nýta góða veðrið og fara í gönguferð upp að Sandfellstjörn. Þar var í boði að sulla og leika sér í vatninu eða bara slaka á í sólbaði. Allar stelpurnar fóru með í þessa göngu og þótti hún takast mjög vel. Í kaffitímann fengu þær svo kryddbrauð og norska teköku. Eftir kaffi var hefðbundin dagskrá með íþrótta og brennókeppnum, ásamt því að einn hópur útbjó skreytingar fyrir kirkjuna sem við ætlum að nota í kvöld.
Kvöldmaturinn var hið víðfræga bleika vindáshlíðarskyr og brauð með því. Það þarf varla að taka það fram að bleika skyrinu var vel tekið af þessum flotta hóp sem hér er.
Eftir kvöldmatinn var kirkjustund fyrir stelpurnar. Við ákváðum að hafa ekki hefðbundna messu en höfðum þess í stað notalega kirkjustund með fullt af söngvum, stelpurnar fengu að heyra söguna um kirkjuna og svo var hugleiðing um miskunsama samverjann.
Þetta er líka merkisdagur fyrir kirkjuna því að í dag, 16. ágúst, á kirkjan 55 ára endurvígsluafmæli. (fyrir þá sem ekki þekkja söguna, þá, í stuttu máli, var kirkjan flutt í heilu lagi frá Saurbæ á Hvalfjarðarströnd og hingað í Vindáshlíð og þegar hún var komin þá þurfti að laga hana og byggja viðbyggingu og hún var svo tilbúin og endurvígð þann 16. ágúst 1957.) Það fór því vel á að nota þennan merkisdag í kirkjustund.
Eftir kirkjustundina var svo haldið út að varðeld sem að foringjarnir höfðu kveikt upp í. Þar var mikið fjör, mikið sungið og svo voru grillaðar súkkulaðikex-sykurpúðasamlokur sem búnar eru til úr tveimur póló-kexkökum og sykurpúði á milli. Þetta þótti afskaplega skemmtilegt kvöldkaffi og heppnaðist vel.
Bænakonur fóru svo inn til sinna stelpna um 10:30. Þegar þær voru búnar að ljúka deginum með þeim buðu þær stelpunum uppá óvænta uppákomu. Við ákváðum að bjóða uppá „late-night“ dagskrá (eða „síðkvöldsdagskrá“) þar sem þær sem vildu ærslast meira gátu farið í íþróttahúsið í skotbolta. Þær sem vildu horfa á bíómynd í setustofunni komu þangað með sængur og höfðu það kósí og þær sem vildu fara að sofa eða spjalla saman á lágu nótunum gátu verið inn í herbergjunum sínum og haft það huggulegt þar. Þetta var mjög vinsælt hjá stelpunum og fáar sem völdu það að fara að sofa. Dagskráin var svo búin um 01:00 og algjör ró komin í skálann okkar um 01:30.
Eflaust furða margir foreldrar sig á því að við erum búnar að fara seint að sofa nokkur kvöld (eftir miðnætti) en hver hópur er sérstakur og það virðist henta þessum hóp mjög vel að fá að vaka aðeins lengur en vaninn er í sumarbúðum. Þá virðist koma betri ró á þær og þær sofna fyrr og betur, heldur en þegar við reynum að koma á ró fyrir miðnætti. Í staðin höfum við sofið aðeins lengur á morgnanna svo allar stelpurnar ættu að ná að hvílast vel þó þær sofni seint.
Á morgun (föstudag) er svo veisludagur og nóg um að vera fyrir hressar stelpur.
Með Hlíðarkveðjum, Jóhanna K. Steinsdóttir.