Nú styttist í Sæludaga í Vatnaskógi um verslunarmannahelgina, dagana 2.- 6.ágúst, sem eru vímulaus fjölskylduhátíð og skemmtilegur valkostur um þessa vinsælu ferðahelgi. Svæðið opnar að þessu sinni á fimmtudagskvöldið 2. ágúst.
Fjölmargir spennandi dagskrárliðir verða í boði að venju, meðal annars Gospelsmiðjur fyrir fullorðna og börn á laugardeginum og ZUMBA – danskennsla.
Gospelsmiðjunni fyrir yngri kynslóðina stýrir Þóra Björg Sigurðardóttir, sem hefur starfað í sumarbúðum og æskulýðsstarfi KFUM og KFUK til margra ára. Þóra hefur einnig lagt stund á söng og dans. Á Sæludögum í fyrra var gospelsmiðjan fyrir börn og einnig Söng-og hæfileikasýning barnanna í umsjá Þóru.
Stjórnendur Gospelkórs fyrir fullorðna (eldri en 14 ára) verða hjónin Áslaug Helga Hálfdánardóttir tónmenntakennari, söngkona og lagahöfundur, og Matthías Baldursson, einnig þekktur sem Matti Sax, saxófónleikari og aðstoðarskólastjóri í tónlistarskólanum Tónsölum, og stjórnandi poppkórsins Vocal Project. Á Sæludögum á síðasta ári var Áslaug aðstoðarstjórnandi gospelkórsins þar ásamt Óskari Einarssyni.
ZUMBA – danskennsla – hreyfing fyrir alla fer fram á laugardegi og sunnudegi fyrir framan Matskálann kl.10:15 og er í umsjá Þóru Bjargar Sigurðardóttur. Kjörið er að hefja dagana á hollri hreyfingu í góðum félagsskap.
Á Sæludögum er lögð áhersla á að allir aldurshópar skemmti sér, og meðal þess sem verður einnig í boði þessa helgi er atriði úr barnaleikritinu „Allt í plati“ í umsjá TenSing Iceing, ýmis fræðsla og kynningar fyrir fullorðna, tónleikar með hljómsveitinni Tilviljun?, Café Lindarrjóður, bænastundir í Kapellunni, kvöldvökur, unglingadagskrá, vatnafjör, fjölskyldubingó, kassabílarallý, knattspyrna, grillveisla, tónleikar með Hundi í óskilum, harmónikkufjör, biblíulestur, Söng-og hæfileikasýning barnanna, lofgjörðarstund og margt fleira.
Allar nánari upplýsingar um Sæludaga veitir starfsfólk Þjónustumiðstöðvar KFUM og KFUK í síma 588-8899, en þær er einnig að finna hér: http://www.kfum.is/sumarstarf/vatnaskogur/saeludagar/ .
Verið hjartanlega velkomin á Sæludaga um verslunarmannahelgina!