Veisludagur rann upp bjartur og fagur í Hlíðinni fríðu. Á biblíulestrinum voru rifjaðar upp endurminningar síðan úr fyrsta flokkinum í Vindáshlíð en hann var árið 1947. Sungnir voru margar hlíðarsöngvar og kristilegir söngvar.
Mörg úrslit komu í ljós og bar Reynihlíð sigur úr bítum í brennókeppninni. Eftir kaffi var vinagangur, en þá fengu stelpur að bjóða upp á “opið herbergi” þar sem hægt var að fá hárgreiðslu, nudd, naglalakk eða fleira í þeim dúr. Þegar hringt var í veislukvöld var því hópurinn orðinn prúðbúinn og glæsilegur. Stelpurnar fóru í skrúðgöngu upp að fána til að taka hann niður. Samkvæmt Vindáshlíðar hefðinni fóru þær í “vefa mjúka, dýra dúka” sem felst í að fara í halarófu aftur niður að húsi og leysa úr hlíðarmeyjaflækjunni.
Í hátíðarkvöldverð voru pítur með margvíslegu áleggi. Skógarhlíð fékk bikar fyrir innanhúskeppnina, en baráttan varð hörð í þessum flokki um þann titil, en útslagið gerði blómvöndur sem beið ávalt foringjan sem dæmdi í keppninni. Reynihlíð fékk ekki aðeins brennóbikarinn heldur líka íþróttabikarinn, en fáttítt er að sama herbergið vinni bæði. Verðlaun voru einnig veitt fyrir hæfileikakeppnina, uppflettikeppnina og hinar ýmsu íþróttaþrautir.
Á kvöldvöku skemmtu foringjar með sínum einstöku hæfileikum og sýnt var myndband með ljósmyndum og myndskeiðum úr flokkinum.
Á hugleiðingu fengu stelpurnar ís og heyrðu dæmisögu sem kennir okkur að vera heiðarleg og gera það sem er rétt þótt að það sé erfitt.
Nú er kominn brottfarardagur og sólin vermir vangann. Við munum því að öllum líkindum borða hádegismat úti en það á að grilla pylsur. Í morgun kepptu brennómeistarar við foringja, þá keppti annað sætið og foringjar við alla og að lokum var bænakonubrennó, en þá er allri Vindáshlíð skipt upp í tvö lið og forstöðukonan dæmdi leikinn.
Við stefnum á að leggja af stað héðan klukkan 3 svo að stelpurnar verða komnar í bæinn um klukkan 4. Takk fyrir frábæra viku stelpur! Þið eruð alveg frábærar og munið að Guð elskar ykkur og “vill veita yður vonarríka framtíð”.