Ungmennafélag Íslands, KFUM og KFUK, Bandalag íslenskra skáta og Slysavarnafélagið Landsbjörg hafa undanfarin misseri staðið fyrir Verndum þau – námskeiðum undir merkjum Æskulýðsvettvangsins. Námskeiðin eru byggð á efni bókarinnar, Verndum þau, og fjalla um hvernig bregðast eigi við grun um ofbeldi og vanrækslu gegn börnum og unglingum. Námskeiðin eru ætluð öllum þeim sem starfa með börnum og unglingum hjá sveitarfélögum, íþróttafélögum, æskulýðsfélögum og öðrum þeim sem áhuga hafa. Æskulýðsvettvangurinn gerir kröfu um að allir starfsmenn og sjálfboðaliðar innan vettvangsins sæki námskeiðið.
Flest börn búa við öruggt og friðsælt umhverfi, heima, í skóla, leik- og frístundastarfi. Því miður á þetta ekki við um öll börn. Á Íslandi eru börn sem eiga undir högg að sækja, búa við vanrækslu eða eru beitt ofbeldi – líkamlegu, kynferðislegu eða andlegu. Það er mikilvægt að þeir sem starfa með börnum og unglingum séu meðvitaðir um skyldur sínar og ábyrgð og geti lesið í vísbendingar um að vanræksla eða ofbeldi eigi sér stað gegn börnum.
Það eru höfundar bókarinnar, Verndum þau, þær Ólöf Ásta Farestveit og Þorbjörg Sveinsdóttir sem kenna á námskeiðunum. Ólöf Ásta er uppeldis- og afbrotafræðingur og Þorbjörg er með BA í sálfræði. Báðar starfa þær í Barnahúsi og hafa mikla reynslu af barnaverndarmálum.
Á námskeiðinu verður farið yfir:
– tilkynningarskyldu starfsmanna sem vinna með börnum og unglingum.
– líkamlegt, andlegt og kynferðislegt ofbeldi og vanrækslu hvers konar.
– úrræði sem í boði eru í samfélaginu fyrir börn og unglinga sem eru þolendur ofbeldis.
Næsta námskeið verður haldið í Hraunbyrgi, Hafnarfirði (skátaheimilið við Víðistaðatún) þriðjudaginn 19. júní kl. 17 -20. Skráning er á www.skatar.is/vidburdaskraning eða hjá nanna@hraunbuar.is