Eins og fyrri dagar rann þessi upp bjartur og fagur.
Farið í brennó, leiki, íþróttir og vinabönd ofin í tugatali.
Í hádegismat var lasanja sem borðað var af bestu lyst.
Eftir hádegi var farið í létta göngu að tveimur fossum hér í nágrenni Vindáshlíðar. Annar heitir Pokafoss og hinn er kallaður Brúðarslæða. Þar fengu þær sem vildu að busla og leika sér. Hægt er að fara bak við Brúðarslæðu og það fannst mörgum gaman.
Kvöldvakan tókst reglulega vel og er gaman að sjá aftur leikrit sem leikin voru þegar ég var lítil stelpa í Hlíðinni.
Svo var komið að hinu algjörlega óvænta náttfatapartýi. Starfsstúlkur héldu uppi feikna stuði og skemmtilegum söngleikritum sem endaði á því að stelpurnar fengu íspinna og lesin var saga á meðan þær borðuðu þá. En auðvitað þurfti að bursta tennurnar aftur fyrir svefninn.
Þreyttar en sælar stelpur sofnuðu upp úr kl.23
Bestu kveðjur
Halla forstöðukona