Það voru hressar og spenntar stelpur sem lögðu af stað í Vindáshlíð í gær kl.9 frá Holtavegi. Nokkrum sinnum á leiðinni var spurt: ,,Hvenær komum við?” ,,Er langt eftir?”.
Kl.10 var komið á staðinn og fóru stelpurnar beint inn í matsal þar sem þeim var deilt niður á herbergi. Herbergin í Vindáshlíð eru átta og sex manna. Það reynir því á samskiptahæfileika stelpnanna að búa svona margar saman í sex daga.
Stelpurnar skoðuðu sig um svæðið til kl.12:30 en þá fengu þær grjónagraut í hádegismat og brauð með. Það er auðséð að þessar stelpur eru eins og flest börn og líkaði grauturinn vel.
Kl.14 var farið í Hlíðargöngu og farið um svæðið undir handleiðslu starfsstúlkna. Þær sýndu stelpunum skemmtileg leiksvæði í skóginum og hvernig gott er að bera sig að svo að enginn fari sér að voða.
Kl.15:30 var svo ,,kaffi”tími. Þá var boðið upp á brauðbollur með osti og súkkulaðiköku. Þetta rann ljúflega ofan í stelpurnar.
Svo var komið að íþróttum, brennókeppni og undirbúningi kvöldvöku.
Í Vindáshlíð er íþróttakeppni með hinum ýmsu keppnisgreinum. Það geta verið húshlaup, aparólukeppni, stígvélakast, hástökk, langstökk, broskeppni og fleira. Í þetta sinn var það húshlaup. Það felst í því að hlaupa hring í kring um húsið. Stelpurnar eru hvattar til þess að taka þátt og ná þannig í stig fyrir herbergið sitt.
Brennókeppnin er alltaf jafn vinsæl og náðu öll herbergi að keppa fyrstu umferð í gær.
Kvöldvökur í Vindáshlíð eru alltaf í umsjá stelpnanna þ.e.a.s. tvö til þrjú herbergi sjá um hana hverju sinni fyrir utan síðasta kvöldið sem er þá í umsjá starfsfólks.
Á þessum kvöldvökum taka stelpurnar oft sín fyrstu skref á leiklistarferlinum. Það er alltaf starfsstúlka sem leiðbeinir þeim við undirbúninginn.
Kvöldmatur var svo kl.18:30 það var píta með nautahakki og ýmsu grænmeti og kvöldvakan byrjaði kl.20.
Mikið fjör var á kvöldvöku. Skemmtilegir leikir og leikrit og auðvitað sungið mikið eins og alltaf er gert í Vindáshlíð.
Eftir það var svo kvöldkaffi þar sem í boði voru epli og bananar.
Því næst var róleg stund í setustofu þar sem sungin voru róleg lög og stelpunum sögð saga með þeim boðskap að best er að koma fram við aðra eins og maður vill að komið sé fram við sig.
Svo var komið að tannburstun og fengu þær sem vildu að fara út að læk og bursta tennur.
Því næst komu bænakonur inn á herbergin en það eru starfstúlkur sem koma inn til stelpnanna á kvöldin og spjalla og ekki síður hlusta á hinar ýmsu skemmtilegu sögur sem stelpurnar þurfa að fá að segja frá. Þessa starfsstúlkur eru kallaðar bænakonur vegna þess að þær kenna stelpunum oft eitt til tvö bænavers og fara svo með kvöldbæn með þeim. Þessi stund er stelpunum mikilvæg og gott fyrir þær að ,,eiga” eina starfsstúlku yfir dvalartímann.
Ró var komin um kl.23
Kveðja
Halla Gunnarsdóttir forstöðukona