Nú fer þessi fimmtudagur senn að ljúka og höfum við fengið að njóta frábærs veðurs í dag. Dagurinn er búinn að vera fjörugur og góður. Bátarnir voru opnir, sumir fóru í pottinn, einhverjir voru að lagfæra indjánarjóður, nokkrir voru að tálga, síðan var boðið uppá fótbolta og brennó í Leikskála. Einar sem er einn drengur í flokknum veiddi rúmlega 2 punda bleikju á dorgveiðistöng sem er örugglega skógarmet því svo stóran fisk muna elstu menn vart eftir. Fræðsla dagsins snérist um hjálpsemi og að hjálpa náunganum þó svo maður þekki hann ekki neitt.
Flugurnar voru duglegar að kitla eyru og nef drengjanna enda er mikið af flugum hér í skóginum. Nú erum við að gera okkur klára fyrir kvöldkaffi þar sem okkur verður boðið uppá eppli, appelsínur og banana síðan verður skundað á kvöldvöku. Eftir kvöldvöku verður boðið uppá kapellustund og síðan fara allir í háttinn enda margir drengir alveg uppgefnir eftir frábæran dag.
með kveðju úr skóginum
Haukur Árni
(myndavélin hefur verið biluð þannig að ekki hefur tekist að taka myndir í dag en allt er að komast í lag)