Dagana 29. og 30. maí fór fram sumarbúðanámskeið fyrir starfsfólk sumarbúða KFUM og KFUK á Holtavegi 28. Starfsfólk frá öllum sumarbúðunum sótti námskeiðið, sem er afar mikilvægur liður í undirbúningi sumarstarfsins sem er handan við hornið.
Námskeiðið hófst á kennslu í eldvörnum, öryggismálum og skyndihjálp, þar sem sérfræðingar fóru yfir nauðsynleg atriði með starfsfólki, bæði með verklegri kennslu og í formi fyrirlestra.
Einnig var fjallað um umönnun barna, samskipti milli starfsfólks, möguleg vandkvæði sem upp geta komið í starfi sumarbúða, viðeigandi boðleiðir vegna gruns um ofbeldi eða vanrækslu gagnvart börnum, húmor á vinnustöðum og vinnu með börnum með frávik.
Bára Sigurjónsdóttir kynnti nýútkomnar siðareglur um samskipti sem hún vann fyrir starfsfólk og sjálfboðaliða Æskulýðsvettvangsins, sem KFUM og KFUK á Íslandi er aðili að.
Á námskeiðinu unnu þátttakendur ýmist að verkefnum í hópum, hlustuðu á fræðslu eða tóku þátt í umræðum. Þá voru leikir kenndir, og fræðsluefni sumarbúða KFUM og KFUK kynnt fyrir starfsfólki. Starfsmenn æskulýðssviðs KFUM og KFUK, Halldór Elías Guðmundsson, Jóhann Þorsteinsson og Hjördís Rós Jónsdóttir höfðu umsjón með undirbúningi og framkvæmd námskeiðsins.
Myndir frá námskeiðinu má sjá hér: http://www.kfum.is/2012/05/31/myndir-fra-namskeidi-sumarbudastarfsfolks/