Sumarbúðir KFUM og KFUK bjóða upp á fjölbreytta flokka á hverju sumri. Þannig býður Ölver og Hólavatn upp á listaflokka, gauraflokkur í Vatnaskógi og stelpur í stuði í Kaldárseli bjóða upp á sérsniðna dagskrá og eins má nefna ævintýraflokka sem eru í boði í öllum sumarbúðunum.
Jón Ómar Gunnarsson, æskulýðsprestur KFUM og KFUK, sem starfað hefur sem forstöðumaður í Vatnaskógi frá 2006, og í ævintýraflokkum allt frá 2004, segir að dagskrá flokkanna sé síbreytileg – aldrei eins tvö ár í röð. Jón Ómar nefnir að meðal dagskrárliða ævintýraflokka í Vatnaskógi sem hafi notið mestra vinsælda síðustu ár séu útilegur, miðnæturhermannaleikur, klifur á klifurvegg, ofurhugavatnafjör og miðnætursigling. Bogi Benediktsson, foringi í Vatnaskógi, nefnir einnig veltibíl, aðspurður um það sem hefur verið vinsælt meðal drengja í ævintýraflokkum, og segir að í flokkunum séu hreinlega „endalaus ævintýri“. Á síðasta sumri setti Bogi einnig upp leikinn „Quidditch“ sem er þekktur úr sögunum um Harry Potter.
Kristbjörg Heiðrún Harðardóttir hefur starfað í Ölveri í til margra ára. Hún segir að það sem einkenni helst ævintýraflokka séu daglegir „þemadagar“, sem hafa hver um sig spennandi þema. „Í ævintýraflokkum í Ölveri breytum við út af hefðbundinni dagskrá og gerum margt óvænt og spennandi í staðinn. Fastir liðir eins og kvöldvökur, bíblíulestrar og brennó eru samt á sínum stað. Dæmi um það sem við höfum gert í ævintýraflokkum eru Survivor-leikur, óvissuferðir, þemaleikir út frá ýmsum ævintýrum og bíómyndum og margt fleira þar sem hugmyndaflug og sköpunargleði barnanna fá að njóta sín“, segir Kristbjörg.
Á Hólavatni er boðið upp á spennandi og fjöruga dagskrá í ævintýraflokkum, sem mun í sumar fela í sér óvissuferðir, ásamt fleiri skemmtilegum uppákomum. Í dvöl á Hólavatni er einnig ómissandi að vaða í vatninu, leika sér í leiktækjum og hoppukastala, skoða sig um í náttúrunni og taka þátt í kofasmíði.
Meðal dagskrárliða í ævintýraflokkum í Kaldárseli eru gönguferðir í Valaból, varðeldur, næturganga á Helgafell, fjársjóðsleit, vatnsslagur í Kaldánni og margt fleira.
Í ævintýraflokkum í Vindáshlíð er bryddað upp á fjölmörgu skemmtilegu, t.d. lengri gönguferðum og ærslafullum hlutverkaleikjum. Oft hefur verið boðið upp á svokallaðan „rugldag“ þar sem dæmi eru um að matseðli hafi verið snúið við á þann hátt að morgunverður var framreiddur að kvöldi til, og kvöldverður að morgni til. Þá eru kvöldvökur með óhefðbundnu sniði, og á þeim eru skemmtilegar uppákomur á borð við hæfileikasýningu og söngvakeppni.
Starfsfólk sumarbúða KFUM og KFUK leggur sig fram um að hafa ævintýraflokka fyrst og fremst ófyrirsjáanlega og skemmtilega.
Allar nánari upplýsingar um ævintýraflokka, hefðbundna dvalarflokka og sumarbúðir er hægt að fá hjá Þjónustumiðstöð KFUM og KFUK að Holtavegi 28 í Reykjavík (sími: 588-8899), og einnig hér á heimasíðu félagsins.