Í síðustu viku fór Elena, sjálfboðaliði hjá KFUM og KFUK í heimsókn í tvær af æskulýðsdeildum KFUM og KFUK, tók þátt í skemmtilegri dagskrá og tók fjölda ljósmynda af þátttakendum og leiðtogum.
Fyrri heimsóknin var í Skapandi! – deildina á Holtavegi, sem er æskulýðsstarf fyrir 11-13 ára stelpur og stráka með áherslu á listsköpun, föndur og handverk. Fundir hjá Skapandi! eru að jafnaði annan hvern fimmtudag. Leiðtogar deildarinnar, Arna og Guðlaug, aðstoða börnin við að handverkið, og miða einnig að því að hjálpa þeim að sýna frumkvæði í sköpuninni. Einnig fer kristileg fræðsla fram á hverjum fundi, líkt og í öðru æskulýðsstarfi KFUM og KFUK. Eftir þennan fund höfðu allir þátttakendur búið til fallegar, litríkar pappírsöskjur sem hægt var að fara með heimleiðis.
Síðari heimsókn Elenu var í æskulýðsstarf í yngri deild KFUK í Lindakirkju í Kópavogi, sem er fyrir stelpur á aldrinum 9-12 ára.Starfið þar fer fram á föstudögum milli kl.16 og 17.
Á þennan fund voru mættar yfir 30 hressar stelpur, sem tóku þátt í nælugerð þennan dag. Stelpurnar fengu að teikna og skrifa og klippa út það sem þær vildu hafa á nælunum sínum, og svo var þartilgerð næluvél notuð til að útbúa nælurnar sjálfar. Leiðtogarnir Hjördís Rós, Kristín, Halldóra og Guðrún, höfðu umsjón með fundinum. Á hverjum fundi eru söngvar sungnir og margvísleg skemmtileg dagskrá er í boði, ásamt því að stelpurnar heyra um Guðs orð. Allar 9-12 ára stelpur eru hjartanlega velkomnar!
Myndir sem Elena tók í heimsóknunum tveimur má finna á facebook-síðu KFUM og KFUK á Íslandi.