156

1. janúar –  Sunnudagur

Þegar tekið var að líða á fyrstu nótt ársins 2012, lögðum við sendinefnd Jól í skókassa 2012, Mjöll, Salvar og Soffía, af stað í langt ferðalag til mið-suðurhluta Úkraínu, nánar tiltekið til þorpsins Subottsi í nágrenni Kirovograd. Tilgangur ferðarinnar var að aðstoða við dreifingu jólagjafa í skókösssum sem söfnuðust á Íslandi fyrir jólin 2011, aðallega til barna á því svæði í Úkraínu. Áður en lengra er haldið, bendum við á að hægt er að skoða myndir af afhendingum skókassa úr ferðinni hér á síðunni, til hægri, undir „Ljósmyndir“.

Flugið okkar frá Leifsstöð var árla morguns 1.janúar. Við flugum af stað í snjókomu, full eftirvæntingar. Við vorum nokkuð lúin eftir að hafa fagnað áramótunum sömu nótt, og þótti nokkuð óvenjulegt að hefja ferðalag svo snemma á nýársmorgun, en samt mjög gaman og spennandi. Sum okkar fengu sér lúr í vélinni, og við millilentum í Kaupmannahöfn. Einn úr teyminu, Salvar, hafði farið tvisvar áður til Úkraínu til að aðstoða við dreifingu jólagjafa frá Jól í skókassa, en hinir tveir liðsmennirnir, Mjöll og Soffía, voru nýgræðingar á þessu sviði.

Að kvöldi nýársdags lentum við í nágrenni Kiev, höfuðborgar Úkraínu. Svalt loft (-2 ⁰C)  tók á móti okkur þar, og á flugvellinum (Boryspol) var skemmtilega ólíkt um að lítast miðað við t.d. flugvellina í Leifsstöð eða Kastrup. Í flugstöðinni voru reykingar leyfðar innandyra, a.m.k. meðal starfsfólksins, og við sáum nokkra einkennisklædda flugvallarstarfsmenn reykja og spjalla saman. Ekki var laust við að andrúmsloftið þarna væri örlítið ógnvekjandi. Kannski var það bara vegna framandi tungumáls og yfirbragðs.

Eftir vegabréfaeftirlit í flugstöðinni í Kiev var tekið á móti okkur af tveimur heimamönnum, Evgeniy og Zlavec, en sá fyrrnefndi er tengdasonur Föður Evgeniy Zhabkovskiy, sem er aðaltengiliður Jól í skókassa í Úkraínu og skipuleggjandi dreifingar skókassanna þar. Evgeniy eldri, eða „Faðirinn“, eins og hann er gjarnan kallaður, er prestur í rétttrúnaðarkirkjunni Úkraínu og og þjónar í sókn í þorpinu Subotste i nágrenni Kirovograd. Hann er einnig formaður KFUM þar í landi.

Evgeniy (yngri) og Zlavec óku okkur  til miðborgar Kiev þar sem ætlunin var að við myndum ná lest til bæjarins Snaminka (í nágrenni Subottsi, þar sem við myndum gista) nokkrum klukkustundum síðar. Við fórum ásamt félögunum á McDonalds og við Íslendingarnir töldum okkur heppin að vera í félagsskap Úkraínumanna sem gátu séð um að panta fyrir okkur. Flest skilti, vegvísar, matseðlar og slíkt voru á úkraínsku og rússnesku, og með slavnesku letri, sem er afar erfitt, ef ekki ógjörningur, fyrir nýgræðinga að átta sig á.

Við héldum svo á lestarstöðina í Kiev, sem er stór, fjölmenn og annasöm. Þar inni voru allar upplýsingar um ferðir lesta (komu-og brottfarartímar og nöfn áfangastaða) á skiltum með slavnesku letri, svo það var gott að njóta leiðsagnar Evgeniy.  Inni í lestarstöðinni var kalt, en algengt að heimilislaust fólk leiti sér þar skjóls og svefnstaðar í biðsölum. Þar voru þó öryggisverðir, einkennisklæddir í íbuðarmikla búninga, títt á sveimi og héldu uppi mikilli reglu. Margar smáverslanir og krár með íburðarmiklu og gjarnan blikkandi jólaskrauti voru á lestarstöðinni, sem var gaman að virða fyrir sér. Evgeniy, „tengdasonurinn“, beið lestarinnar með okkur og vék vart frá okkur þar til í hana var komið, en þá var klukkan að nálgast miðnætti. Áætlað var að lestarferðin til Snaminka tæki u.þ.b. fjórar klukkustundir.

Í lestinni fengum við þrjú  okkar eigin fjögurra manna svefnklefa, sem Faðirinn hafði pantað fyrir okkur. Hann gerði það með vilja að panta fjögurra manna klefa, en ekki þrjú stök rúm (hann útskýrði ástæðu þess síðar í ferðinni með sínum einstaka húmor, sem var nefnilega sú að hann vildi ekki að einhver „ukrainian man with strange feet“ myndi sofa í návígi við okkur). Í klefanum var nokkuð þröngt, en þó mátulegt fyrir okkur og farangurinn okkar. Við festum svefn fljótlega, en vöknuðum öll upp innan tíðar við dágott ískur í lestarteinum, skrölt  og mikinn hristing í lestinni. Okkur stóð ekki á sama i nokkra stund vegna hristingsins, en gátum þó sofnað aftur.

Klukkan rúmlega 3, aðfararnótt 2. janúar komum við til áfangastaðarins Snaminka,  þar sem Faðir Evgeniy Zhabkovskiy beið okkar glaðbeittur og viðkunnanlegur, við annan mann, Serge bílstjóra. Faðirinn tók okkur fagnandi og bauð okkur velkomin. Hann hafði lært nöfn okkar stúlknanna utan að, en þegar hann heilsaði Mjöll sagði hann: „Mjólk?“  – en það leikur á huldu hvort það var sagt í spaugi eður ei, en maðurinn er einstaklega gamansamur og hnyttinn. Hann þekkti Salvar og var mjög glaður að hitta hann aftur. Við komum svo að bílnum, sem var fremur gamall, hvítur, rússneskur sendibíll með flutningageymslu og Faðirinn tjáði okkur að hann yrði fararskjóti okkar í ferðinni.

Við tók u.þ.b. 45 mínútna akstur til prestsbústaðar Föðurins í þorpinu Subottsi . Við vorum stödd í sveit, og myrkrið var mikið. Ekki er almennt mikið um ljósastaura eða götulýsingu á þessu svæði eða öðrum sem við komum til í Úkraínu. Inni í bílnum, sem rúmaði u.þ.b. 8 manns, voru öll sæti þakin með skrautlegum ábreiðum og teppum, og við fótastað í aftursætinu var tankur, sem við komumst að síðar að væri metantankur bílsins. Ekki voru öryggisbelti í bílnum að bílstjórasætinu undanskyldu.

Prestsbústaðurinn  var notalegur, og gott var að leggjast þar til hvílu þessa nótt eftir langt ferðalag. Faðirinn sýndi okkur svefnherbergi sem við fengum afnot af, og úthlutaði þeim á afar einfaldan hátt og benti með orðunum: „Girls here“  og „Boys here“. Soffía og Mjöll deildu herbergi, sem var með afar skemmilegu útsýni yfir garð og sveitina, en Salvar gisti í herbergi ásamt syni föðurins, Vladic, sem er 17 ára.

2. janúar – Mánudagur

Næsta morgun, 2.janúar, vöknuðum við við sólskin, kurr í dúfum af húsþakinu og meira að segja hanagal! Það var hressandi.

Við borðuðum morgunmat með fjölskyldunni og eiginkonu föðurins, Ljudmilu. Ráðskona að nafni Anna hefur fasta búsetu í umræddum prestsbústað í  Subottsi, (ólíkt fjölskyldunni, sem er þar aðallega um helgar, en á íbúð í Kirovograd). Anna er einkar fær í eldamennsku og var afar vandvirk, gestrisin og umhyggjusöm gagnvart okkur. Á hverjum morgni í ferðinni hafði hún undirbúið morgunverðarhlaðborð fyrir okkur, og lagði sig alla fram. Fyrsta morguninn var fjölbreytt fæða í boði, svínakjöt, vareneki  (pasta með innpökkuðum mat, í þetta skiptið kjötbollum), brauð og fleira. Það vakti athygli okkar að stórri tveggja lítra Coca Cola-flösku hafði verið komið kyrfilega fyrir á morgunverðarborðinu, við höfðum ekki búist við slíkum drykkjarföngum! Drykkjarföng voru annars margvísleg í ferðinni, en einu sinni fékk Salvar mjólk úr gamalli kú nágranna prestsfjölskyldunnar að drekka sem Anna sótti í fötu í bílskúrinn! Faðirinn óskaði eftir því að við syngjum íslenska borðsálma bæði fyrir og eftir máltíðir, hvort sem þær áttu sér stað á heimili hans eða á veitingastöðum. Við sungum (yfirleitt með örlitlum vandræðagangi) þekkta borðsálma úr sumarbúðum KFUM og KFUK.

Þennan morgun fórum við í skoðunarferð um kirkjugarð, kirkjulóð og kirkjuna sem Faðir Evgenyi þjónar í, sem er við hlið prestsbústaðarins. Það kom okkur á óvart hve kirkjugarðurinn og leiði í honum voru mikið skreytt, með ýmiss konar litum, skrauti og myndum til að heiðra minningu þeirra sem þar hvíla.

Kirkjan er frekar rúmlítil, en afskaplega falleg. Hún er með háum turni, og er skreytt helgimyndum og „íkonum“. Faðirinn sagði okkur frá helgihaldi í kirkjunni, og minntist m.a. á að hver guðsþjónusta standi í þrjár til fjórar klukkustundir. Ekki er venja að kirkjugestir sitji í kirkjunni , en þar eru engin sæti, aðeins nokkrir hnébekkir.

Eftir kirkjuferðina lögðum við af stað í fyrstu skókassaafhendingu ferðarinnar, en Serge bílstjóri sat dyggur undir stýri og keyrði sveitaveginn til Kirovograd af mikilli sæmd.

Fyrst var för okkar heitið í geymslu verksmiðju nokkurrar í Kirovograd, sem Faðirinn hafði fengið afnot af gegnum kunningsskap, sem gegndi því mikilvæga hlutverki að hýsa alla 4175 skókassana sem höfðu borist verkefninu Jól í skókassa á Íslandi haustið 2011. Til að komast að geymslunni þurftum við að fara gegnum vaktað öryggishlið. Það var gaman að sjá alla skókassana samankomna þarna inni í geymslunni. Þeir voru á nokkrum brettum, pakkað í plast og pappa, flokkaðir eftir því hvort þeir voru ætlaðir stúlkum eða drengjum, og eftir aldurshópum (2-4 ára, 5-9 ára, 10-14 ára og 15-18 ára). Geymslan var stór og rúmgóð, en köld, og rúmaði kassana mjög vel.

Við ferjuðum kassa samkvæmt ákveðnu skipulagi Föðurins (eftir fjölda þeirra barna eftir aldri og kyni, sem dvöldu á heimilinu Nadia í Kirovograd, þangað sem ferð okkar var heitið þennan dag), í bílinn og héldum svo af stað.

Heimilið Nadia er fyrir munaðarlaus börn og börn sem hafa búið við óviðunandi heimilisaðstæður. Nafnið „Nadia“ þýðir víst „von“ á úkraínsku. Undanfarin ár hafa gjafir frá Jól í skókasa verið gefnar börnum á þessu sama heimili, og verkefnið hefur einnig styrkt það á annan hátt, t.d. með því að fjármagna kaup á nýjum línolíum-gólfdúk (árið 2008), sem heimilið hafði sárvantað.

Við fengum góðar og hlýjar móttökur á Nadia. Forstöðumaður heimilisins ásamt starfsfólki tók á móti okkur . Í samkomusal á heimilinu höfðu börn og unglingar sem þar búa, komið sér fyrir og biðu eftir okkur. Þau voru í tveimur hópum sitt hvoru megin í salnum. Annars vegar sátu börn á aldrinum (u.þ.b.) 2-6 ára saman í hóp, snyrtilega en fátæklega klædd, stillt og prúð. Sum brostu og veifuðu til okkar. Hins vegar sátu eldri börn saman i hóp, einnig hljóð og prúð og tóku vel á móti okkur. Snyrtilegt, en tómlegt og rúmgott var í salnum, og dálitlu jólaskrauti hafði verið komið fyrir þar, meðal annars stærðarinnar jólatré. Faðir Evgenyi hélt stutt ávarp, og svo hófumst við handa við að afhenda börnunum og unglingunum gjafir, skókassana frá Íslandi. Það var alveg ótrúlega gaman. Það var eins og sum yngstu börnin ættu erfitt með að átta sig á raunverulega „hvað var í gangi“ þegar þau fengu skókassa í hendur. Flest voru brosandi og virkuðu mjög glöð, ánægð og full eftirvæntingar, en önnur virtust örlitið hissa.

Þegar öll börnin og unglingarnir höfðu fengið jólagjöf frá Íslandi í hendur, settumst við hjá þeim í dágóða stund og fylgdumst með þeim rekja sig i gegnum innihald kassanna sem þau fengu, og skoða munina í þeim af gaumgæfni. Mörg þeirra yngstu virtust hissa á ýmsum leikföngum og dóti sem þar var að finna, og greinilegt var að þau höfðu ekki séð slíkt áður. Salvar aðstoðaði t.d. eitt barn við að setja „Pez“ í „Pezkall“ sem kassi þess innihélt, Mjöll hjálpaði öðru mjög ungu barni að setja á sig hlýja ullarvettlinga, og Soffía fylgdist með nokkrum stelpum máta armbönd og hálsmen sem þær höfðu fengið. Eldri börnin virtust líka spennt fyrir sínum gjöfum.

Við fórum í dálitla skoðunarferð um heimilið. Það er eins konar skammtímavistun fyrir munaðarlaus börn eða börn sem hafa verið tekin af heimilum sínum vegna vanrækslu eða ofbeldis, eða erfiðra heimilisaðstæðna. Á Nadia er herbergi fyrir læknisskoðanir, sem börn gangast undir þegar þau koma fyrst. Sum þurfa að fara í einangrun þar fyrst um sinn, vegna smitandi sjúkdóma. Á staðnum fengum við eining að sjá eldhús, svefn-og salernisaðstöðu barnanna, auk leikherbergis. Í síðastnefnda herberginu var nokkuð af leikföngum, sem forstöðumaður og starfskona á heimilinu sögðu okkur að væru þangað komin frá Jól í skókassa á undanförnum árum. Sömu sögu var að segja um tannburstana á baðherberginu. Það var sérlega áhugavert að sjá eldhús heimilisins. Þar var útbúnaðurinn fábrotinn og maður gat ímyndað sér að hann minnti á iðnaðareldhúsbúnað úr fyrri heimsstyrjöldinni.

Rétt áður en við yfirgáfum Nadia, var rætt um hvernig Jól í skókassa gæti e.t.v. liðsinnt heimilinu meira. Sá fyrrnefndi nefndi að meðal þess sem heimlið skorti mjög væru inniskór fyrir börnin, ný rúmföt fyrir þau og þvottaduft fyrir heimilið. Seinna í ferðinni ákváðum við að skilja eftir peninga hjá Föðurnum, til að fjármagna þessa ósk.

Næsta skókassaúthlutun dagsins 2. janúar fór fram á bókasafni í Kirovograd á vegum góðgerðarsamtakanna Unity (sjá vefsíðu: http://ednist-fond.org.ua/ ). Þegar við mættum þangað voru komnar þangað um 20 fjölskyldur eða hlutar fjölskyldna (t.d. mæðgin, feðgin o.s.frv.), sem eiga það sameiginlegt að búa við erfiðar félagslegar aðstæður. Börnin og unglingarnir (um 2-16 ára) voru ánægð með kassana sína og skoðuðu innihald þeirra af áhuga og sýndu okkur mikið þakklæti. Einn lítill drengur fór með ljóð, það var gaman að sjá og heyra. Við Íslendingarnir sögðum einnig frá sjálfum okkur, og Faðirinn þýddi orð okkar yfir á úkraínsku. Eftir smásamverustund héldu svo allir til síns heima.

Við fengum á þessu síðdegi tækifæri til að rölta um Kirovograd, í fylgd með Föðurnum og syni hans, Vlad (17 ára), sem var dyggur aðstoðarmaður okkar í ferðinni. Það var milt veður og ekki mjög kalt (3-5 gráður). Við fórum á pizzustað ásamt föruneyti okkar. Meðan við sátum til borðs kom lítill strákur (e.t.v. um 5 ára gamall )klæddur í tötra að borðinu okkar til að
betla. Hann virtist fá að ganga á milli borða á pizzustaðnum óáreittur og biðja um peninga. Einhver hafði gefið honum flatbökusneið, og Faðirinn rétti honum smáaura, og sagði okkur síðan að líklega hefðu foreldrar hans sent hann til að betla um peninga, og líklega myndi hann lenda í vandræðum ef hann kæmi tómhentur heim. Þetta var sorglegt að sjá.

Á leið „heim“ í prestsbústaðinn frá Kirovograd, eftir langan dag, lentum við í vandræðum með fararskjóta okkar. Það byrjaði að rjúka mjög úr vél bílsins, svo Serge bílstjóri brá sér út, opnaði húddið og stumraði yfir honum í góða stund, en svo reyndist bíllinn vera í lagi, sem betur fer. Bíllinn var örugglega um 30 ára gamall, „Soviet style“, eins og Faðirinn orðaði það.

3. janúar – Þriðjudagur

Við tókum næsta dag snemma og fórum í skoðunarferð um garð prestsins meðan við biðum eftir að Serge kæmi á sovéska ofurtrukknum að sækja okkur. Í garðinum voru hænur, hani, gæsir, alifuglar, dúfur og hundur! Bakgarðurinn var mesti myndarbúskapur á að líta.

Ferðinni var heitið í miðbæ Kirovograd, á annað bókasafn í fallegri byggingu, þar sem samtökin „Mother‘s Heart“, samtök mæðra barna með fatlanir þar í borg, stóðu fyrir skipulögðum tveimur samverum og afhendingu skókassa með jólagjöfum frá Íslandi til barnanna  þennan dag.

Á þetta bókasafn voru margar fjölskyldur mættar á samverurnar. Mörg barnanna eiga við einhvers konar fötlun að stríða og að sögn Föðurins var um að ræða einstæða foreldra í mörgum tilfellum, sem heyja erfiða lífsbaráttu, gjarnan við mjög kröpp kjör í Úkraínu. Börnin tóku glöð á móti skókössum og þökkuðu mörg hver innilega fyrir sig og foreldrar þeirra virtust einnig mjög þakklátir.

Við hittum Alinu Stepanenko, sem starfar hjá KFUM í Úkraínu.  Hún aðstoðaði okkur við túlkun og afhendingu kassa, og var með okkur þennan dag ásamt Ivan, syni hennar. Þennan dag var kærasta Serge bílstjóra, Inna, einnig í för með okkur og aðstoðaði við dreifingu skókassa.

Við úthlutuðum skókössum svo aftur á sama stað, sama dag.  Að því loknu kom roskin kona frá útvarpsstöð í Kirovograd, til okkar, og óskaði eftir viðtali við okkur (Salvar var talsmaður okkar ). Konan var með diktafón meðferðis og spurði margra spurninga um Jól í skókassa, Ísland almennt og jólahald á Íslandi, sérstaklega vegna þess að jólahald er nokkuð nýtilkomin hátíð í Úkrainu, en jólahald þar var ekki leyfilegt á Sovét-tímabilinu.

Þegar við komum „heim“ um kvöldið beið Lisa litla, yndislega 5 ára dóttir Föðurins eftir okkur, eins og vanalega, með eftirvæntingu. Hún tók vel á móti okkur, þó við töluðum ekki sama tungumál og vildi vera mikið með okkur meðan á dvöl okkar stóð, leika við okkur og sýna okkur dótið sitt. Við áttum margar góðar stundir með henni.

 

4. janúar – Miðvikudagur

Á fjórða degi þessarar viðburðaríku ferðar,  var mikil þoka í morgunsárið. Við hófum daginn á skókassaúthlutun á stóru barnasjúkrahúsi í Kirovograd, eftir að við höfðum birgt okkur upp af kössum í geymslunni í hinum enda borgarinnar. Yfir höfuð fór talsverður tími í ferðir fram og til baka úr geymslunni sem hýsti skókassana, sem var yfirleitt talsvert langt frá áfangastöðum okkar.

Við úthluðum skókössum á tveimur deildum á umræddu sjúkrahúsi í Kirovograd. Þð var áhugavert að koma þar inn. Þar var hreinlegt og mikil klórlykt tók á móti okkur, en umhverfið og aðbúnaðurinn minnti á miklu eldra sjúkrahús t.d. á Íslandi.  Við sáum bíl á sjúkrahússlóðinni sem okkur var sagt að væri sjúkrabíll, en hann leit helst út fyrir að vera notaður í stríðsrekstri, var dökkur á lit, ferkantaður, hrörlegur, svokallaður „rússajeppi“. Við rákum einnig upp stór augu af að sjá starfsstúlkur í eldhúsi sjúkrahússins ganga á milli bygginga með mat í stórum matarfötum. Klæðnaður þeirra var einkar áhugaverður, og skemmtilega gamaldags, og manni datt helst í hug að maður væri þarna kominn gríðarmörg ár aftur í tímann.

Á fyrri deildinni sem við heimsóttum var tekið vel á móti okkur af mörgu starfsfólki deildarinnar (sem allt var kvenkyns), og við leidd inn í herbergi þar sem u.þ.b. 20-30 börn biðu okkar full eftirvæntingar að fá skókassa að gjöf. Við fengum ekki upplýsingar um eðli veikinda þeirra, en það virtist mismunandi hvernig líkamlegt ástand þeirra var, sum voru mjög hress og hoppuðu og skoppuðu um, en önnur voru slappari. Þau voru öll klædd og komin á ról, að undanskilinni einni lítilli stúlku sem var mjög veik, rúmliggjandi í einkastofu. Mjöll og Soffía fóru inn til hennar með skókassa, ásamt hjúkrunarfræðingi. Stúlkan var sofandi, og móðir hennar, þjáð af áhyggjum og þreytu, sat á rúmstokknum tók við kassanum.

Á síðari deildinni sem við heimsóttum voru eldri börn og unglingar. Við afhentum þeim kassa inni í rúmgóðu herbergi, þar sem þau sátu og biðu okkar. Þau voru glöð og þakklát fyrir skókassana og virtust njóta þess að taka upp og skoða dótið í kössunum. Mörg þeirra (líkt og börn á öðrum stöðum sem við afhentum kassa) prófuðu strax flíkurnar sem voru í kössunum (húfur, vettlinga og fleira) og sýndu hvert öðru og voru flest mjög ánægð.

Starfskonurnar á sjúkrahúsinu voru líka þakklátar og góðar við okkur, við fundum fyrir því þrátt fyrir að þær töluðu ekki ensku. Í lok heimsóknar okkar var okkur gefinn stærðar poki fullur af úkraínsku sælgæti ásamt nokkrum vatnsflöskum. Við fengum einnig að gjöf margar myndir sem börnin á sjúkrahúsinu höfðu teiknað og málað í þakklætisskyni fyrir jólagjafirnar.

Næst lá leið okkar í stórmarkað þar sem við versluðum ýmsar vörur til að gefa til barnageðsjúkrahúss í Novi (bæjar sem er í u.þ.b. 40 mínútna akstursfjarlægð frá Kirovograd), en eins og áður hefur verið nefnt, hefur Jól í skókassa styrkt þetta tiltekna geðsjúkrahús í nokkur ár. Á sjúkrahúsinu búa um 23 börn á aldrinum 3-18 ára börn með alvarlegar geðraskanir og fatlanir. Við fengum því miður ekki að hitta þau, en veikindi þeirra voru talin of alvarleg til þess. Ekki er auðið að gefa þeim skókassa, talið er að þau eigi við of mikinn vanda að stríða til að geta notið þeirra. Undanfarin ár hafa aðstandendur Jól í skókassa og sendinefndir fært þeim ávexti eða sælgæti.

Sjúkrahúsið er staðsett  fyrir utan bæinn Novi. Þegar þangað var komið bárum við vörurnar inn og afhentum starfsfólkinu, sem tók vel á móti okkur og var þakklátt. Faðirinn sagði okkur að aðstæður barnanna á þessu tiltekna sjúkrahúsi hefðu batnað mjög mikið á síðustu árum, og að stórum hluta væri það Jól í skókassa að þakka, en fyrir tilstilli þess hefur ýmislegt innandyra verið bætt og styrkt. Fyrir nokkrum árum var peningum safnað til kaupa á tveimur þvottavélum sjúkrahúsinu til handa, en fyrir þann tíma voru þar engar slíkar vélar. Starfskonurnar tjáðu okkur að þessar þvottavélar hefðu verið ákaflega þarfar og vel þegnar, og væru nánast alltaf í notkun. Þær sýndu okkur vélarnar með stolti, sem voru skínandi hreinar, og að sjálfsögðu í gangi. Áður en þvottavélarnar komu, var hreinlæti  víst afar ábótavant á þessum stað.

Í kjallara sjúkrahússins kenndi ýmissa grasa. Þar voru m.a. geymdar flísar og hlutar úr sturtuklefa sem  Jól í skókassa hafði fjármagnað, en ekki hafði gefist tækifæri til að setja upp. Sturtuklefinn var hulinn þarna í fremur hrörlegri geymslu af engu öðru en tignarlegum, stærðarinnar pels! Ástæður þess eru okkur enn ókunnar, en í ferðinni urðum við oft vör við það innandyra að ýmsir hlutir voru gjarnan huldir sjölum eða teppum. Það var ákaflega spaugilegt og gaman að sjá.

Þegar tekið var að kvölda lá leið okkar heim til Alinu, sem fylgdi okkur þennan dag. Hún er búsett ásamt eiginmanni sínum og tveimur sonum í fjölbýlishúsi í Kirovograd. Erindi okkar var að flytja þangað nokkra skókassa, sem hún myndi koma áleiðis á rétta staði. Við fengum því að skoða „týpíska“ úkraínska blokk, en aðstæður þar, t.d. í stigaganginum eru töluvert lakari heldur en í „týpískum“ blokkum á Íslandi, til dæmis var svartamyrkur í stigaganginum og lyftan í blokkinni þröng og hrörleg.

Í prestsbústaðnum um kvöldið var mjög notalegt. Faðirinn og fjölskylda hans höfðu dregið fram margar dýnur í stofunni, og svo var kveikt upp í arninum. Við ræddum saman um fyrirhugaðar sendiferðir morgundagsins, í fangelsi í Kirovograd, annars vegar eitt fangelsi fyrir unglinga, og hins vegar eitt fyrir fullorðna karlmenn.

Þegar komið var að háttatíma vorum við þakklát fyrir góðan og gefandi dag og fórum sæl í háttinn.

 

5. janúar – Síðasti dagurinn í Úkraínu

Við byrjuðum á því að fara í stórmarkað í Kirovograd til að kaupa sælgætispakka handa unglingum í fangelsinu þangað sem ferðarinnar var heitið, alls 33 pakka.  Við tókum ekki skókassa með þangað, því Faðirinn taldi of vandasamt að flytja þá inn í fangelsið, og hann taldi það vera óþægilegt og streituvaldandi fyrir unglingana (sennilega vegna þess að starfsfólk fangelsisins myndi fara ítarlega og e.t.v. ekki varlega í gegnum þá alla, skoða innihald, taka vissa hluti úr þeim, o.s.frv.). Faðirinn útskýrði þetta fyrir okkur í þremur orðum: „Stress for child“, og það dugði okkur.

Þegar í unglingafangelsið í var komið, þurftum við að afhenda vegabréfin okkar, og þar var ströng öryggisgæsla. Við þurftum að fara inn um tvö öryggishlið, gengum svo öll í fylgd nokkurra fangavarða úr móttökubyggingunni yfir malbikaða fangelsislóð  og inn í aðra bygingu þar sem vistarverur fanganna voru. Á fangelsislóðinni , sem var stór, malbikuð og tómleg, vorum við umkringd háum rauðbrúnum steinhúsum, sem höfðu gaddavír í rjáfrinu.  Innviði fangelsisbyggingarinnar var allt úr steini, og var hráslagalegt og kuldalegt. Við fórum ásamt Föðurnum í fylgd fangelsisstjóra og fangavarða inn á herbergjagang þar sem 6-8 fangar á aldrinum 15-18 ára deila hverju herbergi. Við heimsóttum hvert herbergi og afhentum þeim  hverjum og einum sælgætispakka. Í aðeins einu af herbergjunum voru kvenfangar, ein unglingsstúlka og fullorðnar konur, sem deildu herbergi.

Aðbúnaðurinn í þessu fangelsi fannst okkur afar slæmur og fyrir neðan velsæmismörk. Lyktin inni á vistarverunum var sterk og mjög slæm, hreinlega ólýsanleg. Fangarnir, sem eru aðeins börn að aldri (yngri en 18 ára),  sofa á rúmum/beddum  úr járni  með næfurþunnum dýnum og rúmfötum, og þurfa að notast við kamra sem eru inni á herbergjunum sjálfum, með nánast engu skilrúmi eða tækifæri til næðis. Í hverju herbergi sem við heimsóttum höfðu fangarnir stillt sér upp klæddir og biðu komu okkar, og við fengum að heyra dæmi um það hvað þeir höfðu til saka unnið til að enda á þessum stað. Í flestum af þeim tilfellum sem við heyrðum um, var um að ræða smáglæpi á borð við þjófnað á nokkrum hlutum úr matvörubúð, þjófnað á vespum o.þ.h., en fyrir þá reyndust viðurlögin vera nokkur ár í þessu fangelsi. Faðirinn fór með blessun fyrir fangana í hverju herbergi og hélt stutta tölu fyrir þá, sem fól í sér hvatningu og hughreystingu. Það var erfitt og tók á að heimsækja þennan stað, en gaman að hafa (vonandi) glatt fangana með sælgætispökkunum á vegum Jól í skókassa, sem eru líklega einu jólagjafirnar sem berast þeim.

Eftir þetta lá leiðin í stærra fangelsi í byggingu við hliðina á þeirri sem við vorum nýkomin út úr, fangelsið fyrir fullorðna karlmenn. Fyrir þessa heimsókn vorum við með tugi „fangakassa“ sem voru útbúnir í Reykjavík á lokaskiladegi Jól í skókassa, en þeir eru ólíkir „barnakössunum“ að því leyti að þeir eru stærri, og innihalda einfaldari vörur; flík, skriffæri og skrifblokk, súkkulaðistykki og hreinlætisvörur. Nokkrir fangar í fangelsinu deila svo víst gjarnan innihaldi hvers kassa á milli sín. Einnig vorum við með tugi kassa frá KFUM í Úkraínu sem voru svipaðir að innihaldi, til að gefa þar.

Við innganginn  var öryggisgæsla enn meiri en í fyrrnefnda fangelsinu, strangari reglur og meira eftirlit. Fyrir utan fangelsið biðu nokkrar konur, sem við reiknuðum með að væru mæður og eiginkonur eða unnustur fanga, sem væru að reyna að komast í heimsókn til þeirra. Við gengum um lóðina í fylgd fangavarða og fengum að skoða okkur um, meira en við var að búast. Á lóðinni sáum við suma fangana handan girðingar.

Við fórum svo inn í kapellu á miðri fangelsislóðinni, þangað sem einnig komu u.þ.b. 30 fangar, sem höfðu áunnið sér réttindi til þess (með t.d. góðri hegðun) ásamt nokkrum fangavörðum. Þar stóð Faðir Evgeniy fyrir stuttri athöfn og fór með blessun fyrir fangana og bæn. Við fengum afhentar handgerðar gjafir frá föngunu, en þónokkuð er víst um listamenn í fangahópnum. Faðirinn sagði athyglisverða setningu við okkur Íslendingana meðan við vorum inni í kapellunni: „Hérna inni er enginn í fangelsi“ (No one is in jail in chapel), en kapellan er án efa mikill griðastaður fyrir marga fanga. Fangaverðir höfðu borið kassana sem við komum með, inn í kapelluna, og fangarnir skiptu þeim á milli sín og virtust mjög ánægðir með þá. Það var frábært að geta tekið þátt í því að gleðja þá með gjöfum frá Íslandi.

Kapellan er fagurlega myndskreytt með trúarlegum myndum og hátíðleg, lítil og vel haldið við. Faðirinn kemur þangað reglulega og heldur guðsþjónustur fyrir fangana og veitir sálgæslu og stuðning.

Áður en við yfirgáfum fangelsið, heimsóttum við sjúkraálmu þess þar sem aðstæður voru vægast sagt mjög slæmar, og vistarverur fanga sem höfðu eignast sérstök forréttindi með  góðri hegðun, og starfa t.d. í elhúsi fangelsisins. Þær voru samt sem áður bágbornar, og þar var mjög þungt loft, og tugir manna sváfu saman í hverjum sal, í rúmum úr „sovésku stáli“ með næfurþunnum dýnum. Skreytt jólatré var á fangelsislóðinni, það var gaman að sjá, og við vonuðum að það veitti föngunum gleðilegar minningar um jólin.

Ferðirnar í fangelsin tvö voru mjög átakanlegar, en ógleymanlegar.

Við fórum því næst á úkraínskan veitingastað í miðbæ Kirovograd, þar sem við smökkuðum ýmsa úkraínska rétti, m.a. „borch“-súpu, kartöflurétti og tvo sérlega sérstaka drykki. Annar þeirrr bragðaðist eins og „kjötdjús“, en hinn var eins og reyktur perusafi og bar nafnið „kvass“.

Degi var tekið að halla þegar við lögðum af stað í síðustu skókassaafhendingu ferðarinnar. Ferðinni var heitið á heimili fyrir munaðarlaus börn í bæ í nágrenni Kirovograd og Subottsi , í um 40 mínútna akstursfjarlægð frá prestsbústaðnum í síðarnefnda bænum.  Heimilið var mjög snyrtilegt og fallegt, líklega hvað mest af þeim heimilum sem við höfðum heimsótt í ferðinni. Þegar við mættum þangað inn, biðu börnin sem þar búa (flest á aldrinum 3-5 ára) prúðbúin og spennt eftir okkur í stofunni, og fögnuðu og heilsuðu okkur ákaft þegar við gengum inn með skókassana. Það var alveg yndislegt. Þau voru mjög glöð, kát og ánægð að opna gjafirnar sínar og mjög viljug til að sýna okkur innihald kassanna. Þau sýndu einnig mikinn áhuga á að leika sér við okkur, það var mjög gaman og við vörðum dágóðri stund á gólfteppinu í stofunni með þeim, við að skoða alla fallegu munina, fötin og leikföngin sem kassanir frá Íslandi höfðu að geyma.

Okkur þótti aðbúnaðurinn á þessum síðasta viðkomustað okkar sá besti af þeim sem við heimsóttum,  þarna var heimilislegt, hreint, og börnin virtust hamingjusöm. Starfsfólkið þar var vingjarnlegt og tók vel á móti okkur og var þakklátt fyrir heimsóknina okkar.

Þessi heimsókn var  góður og hamingjuríkur endir á annars frekar erfiðum, en mögnuðum degi.

Þetta síðasta kvöld í Úkraínu, sátum við ásamt fjölskyldunni í prestsbústaðnum, borðuðum og spjölluðum við arineldinn og höfðum það gott. Við færðum þeim öllum ásamt Önnu ráðskonu, gjafir (m.a. annars íslenskt súkkulaði) í kveðjusyni og í þakklætisskyni fyrir gestrisni þeirra, umhyggju og góðvild við okkur. Við sjálf fengum einnig gjafir: konfektkassa, súkkulaði, vín og súrar gúrkur, sem kom okkur skemmtilega á óvart.

6. janúar – Heimfarardagur

Heimferðin til Íslands hófst kl.4 að morgni þrettándans, 6. janúar.  Þá mætti Serge bílstjóri á sovéska trukknum sínum og sótti okkur í prestsbústaðinn, og keyrði okkur á rútustöð í nágrenni við Kirovograd. Þar  kvöddum við  Föðurinn, það var ljúfsárt, því það hafði verið alveg magnað að hitta og kynnast þessum einstaka og góða manni sem reyndist okkur svo vel og var einnig svo þakklátur fyrir framlag okkar og allra sem tóku þátt í Jól í skókassa.Við vorum orðin talsvert þreytt þegar við lentum á Keflavíkurflugvelli skömmu fyrir miðnætti. Þá var tæpur sólarhringur liðinn frá því að við hófum ferðina úr prestsbústaðnum.

Eftir heimkomu vorum við þreytt en ánægð og sátt við góða ferð til Úkraínu, sem gekk svo vel fyrir sig í alla staði. Það var frábært að fá að taka þátt í að afhenda og dreifa öllum fallegu og gagnlegu jólagjöfunum í skókössum sem safnað var á Íslandi síðasta haust af Jól í skókassa, og mjög merkilegt og athyglisvert að kynnast aðstæðum þeirra fjölmörgu sem búa við krappan kost og erfiðar aðstæður í Úkraínu.  Þau börn og það fólk sem við sáum og hittum þar úti, er þó vitanlega aðeins brotabrot af þeim fjölda sem heyr harða lífsbaráttu á hverjum einasta degi. Samkvæmt okkar upplifun glöddu skókassarnir frá Íslandi viðtakendur þeirra afskaplega mikið og stuðla að betri jólahátíð fyrir börnin, sérstaklega fyrir þau sem fá aldrei gjafir og eiga aðeins lífsnauðsynlega hluti (og varla það).

Það var ómetanlegt að fá að mæta á svæðið til þessara barna og fá að verja örlitlum tíma með þeim og gera tilraunir til að gleðja þau, sönn forréttindi. Það var líka yndislegt að finna fyrir svo miklu þakklæti af þeirra hálfu, foreldra þeirra, Föðurins og allra sem aðstoðuðu okku í ferðinni í Úkraínu.

Öllum sem gáfu skókassa til verkefnisins  síðasta haust, og öllum þeim sem aðstoðuðu við verkefnið á einn eða annan hátt eru færðar innilegar þakkir fyrir framlagið.

Við erum mjög þakklát fyrir ferðina og verkefnið Jól í skókassa, og óskum þess að það muni vaxa og dafna um ókomna tíð.

Kær kveðja,

Mjöll Þórarinsdóttir, Salvar Geir Guðgeirsson og Soffía Magnúsdóttir