Fjórða sunnudag í aðventu, þann 18. desember, verður síðasta sunnudagssamkoma ársins 2011 haldin í húsi KFUM og KFUK á Holtavegi 28, kl. 20.
Yfirskrift samkomunnar er: „Sannkallað fagnaðarerindi” (Jes. 12:2-5).
Tónlistarflutningur er í höndum Hilmars Einarssonar og nokkurra hæfileikaríkra ungra söngkvenna, sem munu flytja ljúf jólalög. Gestum er boðið að deila jólaminningum sem fela í sér kristilegan vitnisburð, með öðrum. Björgvin Þórðarson stjórnar samkomunni og þau Hörður og Sigrún verða samkomuþjónar. Gylfi Bragi sér um tæknimálin.
Að samkomu lokinni verður sælgætissala KSS opnuð, og gestir eru hvattir til að eiga saman góða stund. Allir eru hjartanlega velkomnir og sérstaklega hvattir til að njóta síðustu sunnudagssamkomu ársins 2011 á Holtavegi. Sunnudagssamkomunefnd KFUM og KFUK þakkar öllum sem aðstoðuðu við samkomurnar á einhvern hátt og gestum fyrir góðar samkomur á árinu og sendir bestu jólakveðjur, með tilhlökkun fyrir starfinu á nýju ári.
Við kveikjum fjórum kertum á;
brátt kemur gesturinn
og allar þjóðir þurfa að sjá
að það er frelsarinn.
(Köhler/Lilja Kristjánsdóttir)