Í dag eru aðeins fimm dagar þar til lokaskiladagur Jól í skókassa rennur upp í ár, en það er laugardagurinn 12.nóvember (á höfuðborgarsvæðinu).
Laugardaginn 12. nóvember verður tekið á móti skókössum í húsi KFUM og KFUK að Holtavegi 28 í Reykjavík frá kl.11-16, sýndar verða myndir frá afhendingu skókassa sem safnast hafa síðustu ár, og boðið verður upp á léttar veitingar. Einnig er tekið við skókössum alla virka daga þessa viku frá kl.9 til 17 að Holtavegi 28.
Á landsbyggðinni eru síðustu skiladagar liðnir á flestum stöðum (sjá nánar
HÉR).
Mikið magn kassa hefur borist undanfarna daga til Jól í skókassa, þar á meðal margir fagurlega innpakkaðir kassar frá börnum á ýmsum aldri.
Á myndinni hér til hægri sjást þrír hressir krakkar sem komu færandi hendi á Holtaveg í síðustu viku og gáfu skókassa til verkefnisins.
Skókassar sem safnast verða sendir til bágstaddra í Úkraínu, og afhentir börnum sem búa við erfiðar aðstæður.
Allir eru hvattir til að taka þátt í þessu skemmtilega verkefni, sem er nú framkvæmd í áttunda skiptið og hentar öllum aldurshópum.
Ítarlegar nánari upplýsingar um verkefnið og leiðbeiningar um hvernig útbúa skal skókassa, er að finna á
www.skokassar.net .