Í þessari viku hafa fundirnir í yngri deildum á Norðurlandi verið sérstaklega ánægjulegir. Efni fundanna hefur verið með sama sniði á Akureyri, Dalvík og í Ólafsfirði en í þessum deildum hafa foreldrar verið boðnir sérstaklega velkomnir. Á mánudag voru um þrjátíu börn og foreldrar í KFUK á Akureyri, á þriðjudag voru tæplega tuttugu í KFUM á Akureyri og í gær voru svo þrjátíu gestir á Dalvík og rúmlega fimmtíu í Ólafsfirði í sameiginlegum deildum KFUM og KFUK.
Efni fundanna var á þá leið að í upphafi var farið í tvo skemmtilega leiki þar sem allir tóku þátt. Að því loknu var kynning á Jól í skókassa og fengu allir bækling með sér heim og hvatningu til að taka þátt í verkefninu. Þá var flutt hugleiðing út frá Guðs orði um mikilvægi þess að eiga fjársjóð í hjarta en ekki bara í veraldlegum auð. Áminning um hve dýrmætt það er að eiga Guð fyrir vin sem við getum leitað til í gleði og sorg. Í lokin voru svo bornar fram veitingar sem krakkarnir höfðu sjálf komið með og lagt í púkk.