KFUM og KFUK á Íslandi hefur um árabil verið í vináttusamstarfi við KFUM í Úkraínu. Meðal annars hefur samstarfið falið í sér verkefnið Jól í skókassa, sem verður haldið með óbreyttum hætti í áttunda sinn nú í haust.
Í tilefni af þessu samstarfi hefur verið ákveðið að bjóða upp á 10 daga kynningarferð til Úkraínu í ágúst 2012. Ievgenii Zhabkovskyi, formaður KFUM í Úkraínu mun skipuleggja ferðina í samstarfi við KFUM og KFUK á Íslandi, og fylgja þátttakendum eftir meðan á ferðinni stendur.
Til stendur að hópurinn heimsæki heimili fyrir munaðarlaus börn og sjúkrahús, þangað sem skókassar frá Íslandi hafa borist fyrir tilstilli verkefnisins Jól í skókassa. Einnig er ráðgert að þátttakendur fái tækifæri til að kynnast úkraínskri menningu.
Kynningarfundur vegna þessarar ferðar verður haldinn í húsi KFUM og KFUK að Holtavegi 28 í Reykjavík mánudaginn 19. september kl.17:30.
Allir eru hjartanlega velkomnir!