9.flokkur
6.dagur
Veisludagur rann upp nokkuð bjartur og fagur en heldur hvass. Vakið kl.9:00.
Morgunverður og morgunstund. Þar rifjuðum við upp það sem við höfum rætt í vikunni og stelpurnar útbjuggu litla Vindáshlíðarbók með myndum sem þær hafa teiknað í morgunstundunum.
Kl.11 var svo úrslitaleikurinn í brennó þar sem Furuhlíð og Barmahlíð kepptu um brennómeistaratitilinn og bar Barmahlíð sigur úr bítum.
Í hádegismat var svo ávaxtasúrmjólk að hætti ráðskonunnar og voru nokkrar sem fengu uppskriftina að súrmjólkinni. Einnig var í boði brauð með ýmsu áleggi.
Kl.14 var svo komið að því að brennómeistarar 9.flokks kepptu við eitilharða foringjana. Þeir eru harðir í horn að taka og gáfu ekkert eftir. Þeir unnu þó brennómeistarana með naumindum og er ég viss um að þær eru allar harðákveðnar í að koma aftur að ári til að taka foringjana í bakaríið.
Veislukaffi var svo kl. 15:30 og var ein heppin Hlíðarmey sem átti 10 ára afmæli í dag og var sunginn sérstakur Vindáshlíðarafmælissöngur henni til heiðurs. Einnig fékk hún sér skreyttan súkkulaðikökubita í afmælisgjöf með kerti. Auðvitað fengu allar hinar Hlíðarmeyjarnar súkkulaðiköku og kryddbrauð.
Eftir kaffi var svo hárgreiðslukeppnin sem margar höfðu beðið eftir. Það er alveg með ólíkindum hvað þessar stelpur geta verið hugmyndaríkar. Náttúran var nýtt til hárskreytinga, einnig hálsfestar, perlur og margt fleira. Tvær stelpur voru meira að segja með eina sameiginlega hárgreiðslu þ.e. þær greiddu saman hár sitt. Þær bókstaflega fóru í hár saman.
Veislumatur var svo kl.18:00. Starfsfólkið var búið að undirbúa veislusalinn og skreyta fyrir hátíðina. Pizzur voru borðaðar af mikilli lyst.
Veislukvöldvakan byrjaði svo kl.20. Starfsfólkið lék hin ýmsu leikrit af hjartans list og var mikið hlegið í Hlíðinni þessa kvöldstund.
Kvöldkaffi og róleg stund þar sem stelpurnar fengu að heyra söguna um Risann eigingjarna eftir Oscar Wilde.
Stelpurnar sofnuðu fljótt, örþreyttar eftir daginn.
Ró komin á rétt fyrir miðnætti.
Bestu kveðjur og takk fyrir lánið á þessum frábæru stelpum. Við starfsfólk Vindáshlíðar vonum innilega að við sjáum þær allar aftur að ári liðnu.
Halla Gunnarsdóttir forstöðukona
Ps. Það hefur gengið illa að koma myndum úr flokknum inn á netið en það mun vonandi leysast næstu daga.