Nú er síðasti heili dagurinn í 7.flokki Vindáshlíðar á enda.
Dagurinn nefnist „Veisludagur“, og bar sannarlega nafn með rentu, því dagskrá dagsins var með hátíðlegu og fjörugu ívafi. Eftir að stelpurnar höfðu borðað morgunmat héldu þær í fánahyllingu, þrátt fyrir regndropa!
Að því loknu mættu þær á Biblíulestur þar sem umfjöllunarefnið var það hvernig Jesús kenndi mönnunum að biðja, og það hvernig allir mega biðja til hans hvar og hvenær sem er. „Faðir vor“ var útskýrt ítarlega, og margar stelpur nefndu það aðspurðar fyrir hverju eða hverjum þær biðja. Stelpurnar horfðu loks á myndband við lagið „Pray“ með ungsöngvaranum Justin Bieber, sem er víst ákaflega vinsæll meðal þeirra.
Úrslitaleikurinn í brennó fór svo fram, þar sem sigurvegararnir komu úr herberginu Reynihlíð. Einnig tóku þá nokkrar stelpur þátt í „húshlaupi“, sem er hlaup kringum húsið í Vindáshlíð, aðrar spreyttu sig í húlla-hringjum, vinabandagerð og fleiru.
Í hádegismatinn var boðið upp á ávaxtaskyr og brauð með ýmsu áleggi. Þá tók við hið svokallaða „Foringjabrennó“, þar sem sigurlið brennókeppninnar keppti við litskrúðugt lið foringja sem mættu baráttuglaðar til leiks og sýndu ýmsar kúnstir í íþróttahúsinu.
Í kaffitímanum voru ljúffengar súkkulaðikökur með kremi og kryddbrauð á boðstólnum, sem stelpurnar tóku flestar fagnandi.
Eftir kaffi tók við skemmtileg hárgreiðslukeppni sem flestar tóku þátt í og fóru á kostum í frumlegum og fallegum greiðslum á hári hver annarrar. Salóme og Unnur aðstoðarforingjar voru dómarar og tóku myndir af öllum greiðslunum. Þar næst brugðu stelpurnar sér í betri fötin og hófu „upphitun“ að kvöldmatnum á veisludegi. Safnast var saman á herbergjaganginum þar sem stelpurnar pöruðu sig saman tvær og tvær, tókust í hendur og mynduðu „fjöll“ með höndunum, og útbjuggu svo eins konar stór göng þar sem stelpnapör á hverjum enda fara undir „fjöllin“ sem allar hinar hendur stelpnanna hafa myndað. Þetta gerðu stelpurnar alla leið niður í kvöldvökusal, og sungu á meðan (samkvæmt hefð) lagið „Vefa mjúka, dýra dúka“, við mikla kátínu en vandvirkni.
Þegar þessu var lokið fór fram myndataka, þar sem tekin var mynd af stelpunum í hverju herbergi fyrir sig, með bænakonunni sinni.
Þegar inn í matsal var komið, var búið að gera afar hátíðlegt þar, raða borðunum upp á annan hátt en vanalega, og kertaljós var að finna áhverju borði. Stelpurnar sátu svo til borðs og gæddu sér á góðum Vindáshlíðar-pítsum og berjadrykk, með bænakonunum sínum.
Eftir mat flýttu stelpurnar sér að pakka niður fötunum sínum og dóti, áður en kvöldvakan hófst, sem var í umsjá foringjanna. Ãmis atriði og leikrit voru sett á svið, sem vöktu mikla gleði, auk þess sem stelpurnar sungu mörg lög, m.a. „Who is the king of the jungle?“, „Ég er ekki fótgönguliði“ og fleiri.
Boðið var upp á íspinna og ávexti í kvöldkaffi, en á meðan stelpurnar borðuðu hlustuðu þær á hugleiðingu um það hve mikilvægur hver og ein er í augum Guðs, og að allar hafa ólíka hæfileika.
Stelpurnar enduðu daginn með því að syngja kvöldsöng Vindáshlíðar og áttu síðan rólega stund inni á herbergjum. Ró var komin í húsið kl.rúmlega 00:30.
Það hefur verið frábært að kynnast þessum góðu stelpum þessa viku. Við þökkum fyrir góðan Veisludag og góða viku í Vindáshlíð, og vonum að heimferðin gangi vel.
Myndir frá Veisludeginum eru væntanlegar!
Áætlað er að rútan komi til Reykjavíkur (á Holtaveg 28) um kl.12 í dag, 27.júlí.
Með bestu kveðju!
Soffía Magnúsdóttir forstöðukona