Þegar stelpurnar komu í morgunmat hittu þær marga bleikklædda foringja þar sem um var að ræða bleikan dag. Eftir venjulegan morgunverð fóru þær á biblíulestur og lærðu um Jesús sem er sonur Guðs. Þær heyrðu einnig söguna um það hvernig Jesús læknaði lamaða manninn. Eftir biblíulestur var síðan keppt í brennó og íþróttum. Í hádegismatinn var boðið upp á pítur og grænmeti sem stelpurnar hámuðu í sig og þóttu mjög góðar. Eftir hádegismatinn var haldin brunaæfing og stóðu stelpurnar sig mjög vel og voru fljótar að fara út úr húsinu á íþróttavöllinn eins og þeim hafði verið kennt. Síðan var farið í íþróttahúsið þar sem stelpurnar fengu svartan ruslapoka og áttu að hanna föt á 1-2 stelpur úr herberginu ásamt því að mála hana og gera hágreiðslur. Þar sýndu stelpurnar enn og aftur hvað þær eru skapandi og frábærar. Afraksturinn glæsilegur og skemmtu þær sér allar mjög vel. Í kaffinu fengu þær döðlubrauð og appelsínuköku sem þær renndu niður með appelsínusafa. Eftir kaffi hélt brennókeppnin áfram auk þess sem keppt var í kraftakeppni. Sumar bjuggu til vinabönd og aðrar aðstoðuðu við undirbúning guðþjónustunnar sem átti að fara fram um kvöldið. Í kvöldmat var boðið upp á ýsu og kartöflur ásamt salati. Við áttum góða og þægilega stund í kirkjunni þar sem stelpurnar lærðu um það hvernig Jesús er vínviðurinn og við greinarnar ásamt því að heyra söguna um kirkjuna og syngja saman. Eftir guðþjónustuna var boðið upp á kirkjukaffi og fengu stelpurnar því vöfflur og ávexti í kvöldkaffinu. Eftir að hafa farið út í læk og tannbursta mættu bænakonurnar í hvert herbergi og enduðu daginn með stelpunum. Þar með var dagurinn þó ekki búinn. Foringjarnir höfðu tekið sig til og náð í jólatré í skóginum og skreytt matsalinn með jólaseríum. Það var því dansað í kring um jólatréð og hurðaskellir kíkti í heimsókn og færði öllum piparkökur. Stelpurnar voru alveg búnar á því þegar foringjarnir fylgdu þeim inn í rúm og steinsofnuðu um leið og þær lögðust á koddann.
Myndir á flokknum má sjá hér.