Stelpurnar voru vaktar í morgun með strumpasöng og þegar þær komu í morgunmat hittu þær foringjana sem voru allir orðnir bláir í framan í bláum fötum með hvítar húfur. Ástæðan var sú að alþjóðlegi Strumpadagurinn var haldinn hátíðlegur út um allan heim og að sjálfsögðu misstum við ekki af því. Æðstistrumpur lét einnig sjá sig og stjórnaði öllum strumpunum. Eftir morgunmatinn, þar sem var boðið upp á morgunkorn og hafragraut með blárri strumpamjólk, var farið á Biblíulestur þar sem stelpurnar lærðu um Davíð og Golíat. Þær heyrðu einnig söguna um góða hirðinn og hvernig Guð passar upp á okkur og veitir okkur allt sem að við þurfum á að halda. Eftir Biblíulestur gerðu sumar vinabönd á meðan aðrar fóru og kepptu í húshlaupi eða spiluðu brennó. Í hádegismatinn voru fiskibollur á boðstólnum sem að stelpurnar borðuðu upp til agna. Þegar bjöllunni var hringt eftir hádegi komu allar stelpurnar inn í setustofu og hittu Æðstastrump í miklu uppnámi. Kjartan galdrakarl hafði rænt Strympu og í kjölfarið tók við ævintýraleg leit í skóginum. Að lokum fannst Strympa og allt endaði vel. Norska tekakan og bananabrauðið rann ljúflega niður eftir gönguna sem endaði í hellirigningu og var því gott að koma inn í matsal og fá eitthvað gott að borða. Eftir kaffi var síðan göngugata og vinadekur. Þá tók hvert herbergi sig til og bauð upp á einhverja þjónustu. Sem dæmi má nefna naglalökkun, nafnaskriftir, skopmyndir, hárgreiðslu, förðum og margt fleira. Eftir göngugötuna fengu stelpurnar grjónagraut með rúsínum og kanilsykri ásamt eins miklu brauði og þær gátu borðað. Um kvöldið var öllum stelpunum safnað saman í kvöldvökusalinn án þess að vita hverju þær ættu von á. Þá var komið að ævintýrahúsinu í Vindáshlíð og hittu stelpurnar alls kyns verur eins og Pétur Pan, Þyrnirós, Harry Potter, Öskubusku, stjúpu Mjallhvítar og úlfinn í Rauðhettu. Í kvöldkaffinu var boðið upp á kex og ávexti og á hugleiðingunni heyrðu þær söguna um hann Sakkeus tollheimtumann. Það voru þreyttar en glaðar stelpur sem lögðust á koddann sinn það kvöldið og spenntar að vakna og sjá hvað næsti dagur hefði í för með sér.
Við skilum kærri kveðju úr Hlíðinni.