Á fimmtudagskvöld velti ég því fyrir mér örlitla stund hvort að dagskráin í ævintýraflokki stæði fyllilega undir nafni, enda voru ekki nema þrír dagskrárliðir í boði eftir kvöldmat.
Vangaveltum mínum var hins vegar svarað allsnarlega í gær, enda þurftum við að beita mikilli útsjónasemi til að koma öllu að sem við vildum bjóða upp á. Hér var enda róðrarkeppni, fótboltaspilsmót, keppt í kong, boðið upp á kvikmyndavinnu, keppt í innanhúsknattspyrnu og körfubolta, boðið upp á báta, spjótkast, húllahringskeppni, þrautabraut, hástökk og eitthvað meira sem ég man ekki lengur. Þá kom skriðdreki björgunarfélagsins á Akranesi á svæðið og vakti mikla lukku. En það var reyndar ekki hluti af auglýstri dagskrá.
Eitt óhapp varð í gær, en ungur drengur féll og braut bein í handlegg og þurfti að fara heim, tveimur dögum of snemma. Þrátt fyrir að óhöpp eins og þetta geri sjaldnast boð á undan sér, enda kannaðist rúmlega hálfur flokkurinn við að hafa brotið bein þegar ég spurði þá í matsalnum, þá er það auðvitað aldrei skemmtilegt.
Annars er framundan annar fullur dagur af fjöri hér í Vatnaskógi. Ég lofa því hér með að drengirnir verða lítið sofnir og ofurþreyttir þegar þeir koma með rútunni inn að KFUM og KFUK húsinu við Holtaveg á morgun kl. 17:00. Jafnvel þó að á morgun verði þeim boðið að sofa lengur hér í Vatnaskógi en venjulega. Ég vona að foreldrar hafi ekki skipulagt mikla dagskrá fyrir þá á sunnudagskvöld og mánudagsmorgun. 🙂
Hægt er að ná í forstöðumann flokksins á elli@vatnaskogur.net.