Í þessari viku hefja fundir Aðaldeilda (AD) KFUM og KFUK göngu sína að nýju eftir jólaleyfi.
Í gærkvöldi, 11. janúar var fyrsti fundur ársins 2011 hjá Aðaldeild (AD) KFUK haldinn í félagshúsi KFUM og KFUK á Holtavegi í Reykjavík, þar sem Edda Möller og Erna Blöndal fjölluðu um bænina og bænasöngva. Allar konur á öllum aldri eru hjartanlega velkomnar á fundi AD KFUK á þriðjudagskvöldum.
Á morgun, fimmtudag 13. janúar verður fyrsti AD KFUM-fundur ársins haldinn að Holtavegi 28 kl.20. Á fundinum mun Dr. Sigurður Pálsson fjalla um stöðu kristni á Íslandi í upphafi nýrrar aldar. Magnús Viðar Skúlason verður með upphafsbæn og Sigurbjörn Þorkelsson stjórnar fundinum. Allir karlmenn á öllum aldri eru hjartanlega velkomnir, og hvattir til að fjölmenna á þennan fyrsta fund ársins.
Fundir Aðaldeilda (AD) KFUM og KFUK eru hluti af fullorðinsstarfi KFUM og KFUK á Íslandi (sjá nánar
hér). Yfir vetrartímann eru fundir Aðaldeildar KFUK haldnir á þriðjudagskvöldum, og fundir Aðaldeildar KFUM eru haldnir á fimmtudagskvöldum í félagshúsi KFUM og KFUK að Holtavegi 28, klukkan 20 í báðum tilfellum.
Dagskrá funda Aðaldeildanna er bæði fjölbreytt og spennandi nú á vormisseri. Eftir að dagskrá funda lýkur í hvert sinn, eru kaffiveitingar og kaffi á boðstólnum fyrir fundargesti gegn vægu gjaldi. Gestir eru hvattir til að staldra við og eiga saman góða samverustund.
Gaman er að hefja nýtt ár á notalegri og hátíðlegri stund á AD- fundi í góðum félagsskap.