Óðum styttist í hinn glæsilega basar KFUK, sem verður haldinn laugardaginn 27. nóvember kl.14 á Holtavegi 28. Á basarnum verður boðið til sölu ýmislegt gullfallegt handverk, og úrval af kökum, smákökum og fleira góðgæti
Allur ágóði af basarnum er til styrktar starfsemi KFUM og KFUK á Íslandi.
KFUK-konur hvetja alla til að styðja við framtakið og leggja sitt af mörkum til basarsins, til dæmis með því að baka smákökur eða tertur (eða annað matarkyns), sem hægt er að selja á basarnum. Einnig er hægt að styðja við basarinn með því að gefa til hans nýja eða notaða (og vel með farna) smáhluti og fylgihluti.
Í Þjónustumiðstöð KFUM og KFUK að Holtavegi 28 í Reykjavík (frá kl.9 til 17 virka daga) er nú hægt að fá bæði plast – og málmbox (ílát) sem eru afar hentug til að setja til dæmis nýbakaðar smákökur eða annað góðmeti í, til að selja á basarnum.
Tekið er við gjöfum á basarinn í húsi KFUM og KFUK á Holtavegi 28 í vikunni áður en basarinn er haldinn. Föstudaginn 26. nóvember verður móttaka í húsinu til kl. 21.
Allir eru hjartanlega velkomnir á basarinn, sem er kjörið tækifæri til að styðja við starfsemi félagsins, en um leið festa kaup á fallegu handverki og gómsætu góðgæti, rétt áður en aðventan gengur í garð.
Nánari upplýsingar um basarinn eru hér:
http://www.kfum.is/ad-og-fjolskyldustarf/basar-kfuk/ .